Erfitt að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla
Vöntun hefur verið á daggæslu úrræðum á Fljótsdalshéraði undanfarin ár og dagforeldrar hafa verið nauðsynlegir til að brúa bilið eftir fæðingarorlof þangað til börn komast á leikskóla.
Í haust munu þær Unnur Ólöf Tómasdóttir, Karen Eva Axelsdóttir og Vigdis Eir Jónsdóttir bjóða uppá daggæslu í Vonarlandi þar sem síðasta vetur var rekin auka leikskóladeild. Unnur Ólöf segir þetta vera sína leið til þess að vera ekki tekjulaus þegar fæðingarorlofinu lýkur. „Mín hugmynd byrjar þannig að ég er með einn lítinn sem er ekki að fara að komast inná leikskóla fyrr en hann verður eins og hálfs árs í fyrsta lagi. Það þýðir bara að maður þurfi að vera tekjulaus í marga mánuði. Þannig að ég fór að skoða þetta á þá kom í ljós að það voru ekki að fara að vera neinir dagforeldrar hérna á Egilsstöðum í vetur.“
Unnur segir að það geti verið mjög erfitt að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. „Á Fljótsdalshéraði er í haust verið að taka inn börn fædd allt fram í ágúst 2018. Þannig að þau eru á bilinu rétt rúmlega eins árs til tveggja ára þegar þau komast inn. Þetta fer eftir því hvenær þau eru fædd á árinu. Það eru náttúrulega flestir bara með 9 mánuði í orlof samtals og þeir sem eru einstæðir bara með 6 mánuði nema fólk dreifi þessu niður á fleiri mánuði en þá er þetta náttúrulega bara klink sem fólk fær.“
Þær stöllur vilja hjálpa til við að brúa bilið og Unnur segir greinilega mikla þörf á því. Þær taka við börnum sem ekki komast að á leikskólum, sirka á aldursbilinu níu mánaða til eins árs. „Um leið og við auglýstum, þá byrjaði fólk að hringja. Líka fólk sem vill fá að komast að í janúar en við getum engu lofað með það, það verður bara biðlisti þannig að ef einhver dettur út þá kemst nýtt barn að. Við eigum ennþá pláss í haust. Samt er auðvitað ennþá fullt af fólki sem þarf að vera tekjulaust.“
Unnur segir þó að þær Karen Eva og Vigdís Eir hafi ekki verið í sömu vandræðum og hún. „Þær eru að vinna á leikskólanum og höfðu áhuga á þessu og voru búnar að vera að velta þessu fyrir sér. Hugmyndin kom í rauninni upp hjá þeim á starfsmannafundi á leikskólanum. Þá settum við okkur í samband við Fljótsdalshérað og þau eru búin að vera frábær. Þau koma þvílíkt til móts við okkur. Þetta er auðvitað langbesta lausnin, að við verðum á Vonarlandi. Bæði er það meira öryggi fyrir börnin og þægilegra fyrir okkur að geta unnnið þrjár saman. Þannig að við fórum á fullt að skoða þetta og þetta gekk svona vel upp.“
Það var leikskóladeild í Vonarlandi síðasta vetur en það koma að mestu til af því árgangurinn sem byrjar í grunnskóla núna í haust er óvenju stór og því þurfti tímabundið aukið pláss til að geta tekið inn börn á svipuðum aldri og venja er. „Svo núna er þetta aftur að detta í svona eðlilegra horf að það eru færri börn í árgangi. Við vissum af því að leikskólinn myndi ekki nota þess deild aftur í haust, þá sáum við tækifæri á daggæslu þarna því okkur langaði að gera þetta,“ segir Unnur.