Eydís: Skýrt ákall um breytingar

Eydís Ásbjörnsdóttir, nýr þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, segir úrslit Alþingiskosninganna á laugardag skýrt ákall um breytinganna. Hún vonast til að formaður flokksins, Kristrún Frostadóttir, fái tækifæri til að leiða næstu ríkisstjórn.

„Ég tel úrslitin skýrt ákall um breytingar. Það er greinilegt að áherslur Samfylkingarinnar hafa fengið mikinn hljómgrunn. Flokkurinn er skýr sigurvegari, bæði sem stærsti flokkurinn og með að bæta við sig flestum þingmönnum. Samfylkingin hefur aldrei áður verið stærst í Norðausturkjördæmi og Logi Einarsson leiðir sem 1. þingmaður kjördæmisins sem er ánægjulegt.

Verkefnið framundan er að mynda ríkisstjórn sem sameinast um þjóðþrifaverkefni og ná árangri í þeim. Við vorum skýr í okkar kosningarbaráttu um hvað við stöndum fyrir, sem er að ná meðal annars tökum á efnahagsmálunum til að ná niður vöxtum og verðbólgu og síðan heilbrigðis- og húsnæðismál,“ segir Eydís um úrslit kosninganna.

Formenn þingflokkanna hitta forseta Íslands í dag til að fara yfir stöðuna, en formlega úthlutar forsetinn umboði til stjórnarmyndunar. Aðspurð vildi Eydís ekkert segja um hvernig ríkisstjórn hún sæi fyrir sér en ljóst er að minnsta kosti þrjá flokka þarf til að mynda meirihlutastjórn. „Ef við fáum umboðið þá treysti ég Kristrúnu Frostadóttur fyllilega í það verkefni að leiða stjórnarmyndunarviðræður. Við sjáum hvað gerist á næstu dögum.“

Eydís var í öðru sæti Samfylkingarinnar nú en skipaði þriðja sætið árið 2021 og kom inn sem varaþingmaður í viku fyrir tveimur árum. „Ég er mjög þakklát fyrir þann stuðning og traust sem mér hefur verið sýnt. Ég gef kost á mér til að vinna að okkar málefnum og ætla mér að gera það af heilindum.“

Tveir þingmenn eru búsettir á Austurlandi, hún og Jens Garðar Helgason úr Sjálfstæðisflokknum. Þau eru bæði Eskfirðingar. Eydís vill þó ekki gera of mikið úr þeirri staðreynd. „Fyrst og fremst er ég að fara á þing fyrir Norðausturkjördæmi og landið allt. Ég vinn eftir ákveðinni hugsjón og bauðst tækifæri til að fylgja henni eftir.“

Á kjördag voru slétt tvö ár liðin síðan Eydís var skipuð skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands. „Niðurstöðurnar eru komnar og nú tekur við að ganga frá mínum málum í skólanum og fer á móts við ný verkefni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar