Færð á heiðum skýrist undir hádegi

Snjómokstur er hafinn á helstu fjallvegum á Austurlandi en útlit er fyrir að hann muni taka drjúgan tíma. Snjórinn er víða þungur og erfiður viðureignar.

Samkvæmt kortum Vegagerðarinnar er ófært yfir Vatnsskarð og Fjarðarheiði, eins og hefur verið meira og minna síðan á föstudag. Þá er ófært frá Egilsstöðum og norður um til Vopnafjarðar og Mývatns.

Hjá Vegagerðinni í Fellabæ fengust þær upplýsingar að snjóruðningstæki hefðu farið af stað klukkan sex í morgun og unnið væri á mokstri á öllum leiðum. Það gengur hins vegar misvel. Þannig festist snjóruðningsbíll sem fór af stað í Heiðarenda.

Mikill snjór er á Fjarðarheiði, einkum Seyðisfjarðarmegin. Veðrið þar er þokkalegt en snjórinn þungur og blautur. Aðstæður á heiðum eru í sumum tilfellum betri en neðar í brekkum þar sem snjórinn er blautari.

Þar sem snjórinn er mestur og þyngstur þarf að beita blásurum, til dæmis í Njarðvíkurskriðum. Á Vatnsskarði þarf að losa upp bíla sem festust þar á föstudag. Einn ruðningsbíll er þar á meðal.

Þess vegna er algjörlega óljóst hvenær vegirnir opnast, en vonast er til að línur skýrist um hádegið. Ljóst er þó að fyrst í stað verður aðeins einbreið slóð á löngum köflum á vegunum og þurfa ökumenn því að taka tillit til þess.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar