Færð tekin að spillast innanbæjar

Veðrið tók að versna austan land undir hádegi. Víða er mikil úrkoma, blint og farið að verða þungfært innanbæjar. Engin útköll hafa borist vegna veðursins en fólki er ráðlagt að halda sig heima.

Veðrið byrjaði almennt að versna eystra þegar líða tók á morguninn. Á Jökuldal var þó kominn blindbylur um klukkan sjö í morgun. Í Fljótsdal er bylur en þó þokkalegasta skyggni. Á Úthéraði tók að bæta í vindhviður undir klukkan eitt.

Á Austfjörðum var þokkalegasta skyggni þótt það væru snjókoma og hvasst hið minnsta framundir hádegi. Upp úr hádegi var færð tekin að spillast innanbæjar á Eskifirði. Í Breiðdal sást ekki lengur milli bæja upp úr klukkan 11:30.

Á Vopnafirði fór veðrið að versna upp úr klukkan níu í morgun. Þar var kominn bylur og orðið leiðinlegt færi innanbæjar á tólfta tímanum.

Á Egilsstöðum var snjókoma og fjúk framundir klukkan ellefu. Síðan hefur bætt duglega í bæði vind og úrkomu. Þar er orðið mjög blint.

Engin verkefni hafa borist inn á borð lögreglu í morgun sem tengjast óveðrinu. Ítrekuð eru tilmæli til íbúa að halda sig heima, víða er orðið blint, þungfært á götum og ekkert ferðaveður. Almennt virðast Austfirðingar hafa tekið tilmæli lögreglu til sín, enda eru fáir á ferli.

Samkvæmt veðurspám er gert ráð að ekki dragi úr vindi eða úrkomu fyrr en eftir klukkan fjögur í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.