Félagar í FOSA samþykktu verkfallsboðun

Félagar í Félagi opinberra starfsmanna á Austurlandi (FOSA) hafa samþykkt þátttöku í verkfallsaðgerðum BSRB sem starfa hjá sveitarfélögum víða um land. Verkfallið hefst mánudaginn 9. mars hafi ekki samist fyrir þann tíma.

Kosið var um þátttöku félagsmanna FOSA í verkfallinu í síðustu viku. Kosið var rafrænt og bárust atkvæði frá 81 af 119 á kjörskrá. Verkfallsboðunin var samþykkt með miklum meirihluta þar sem tæp 89% greiddu atkvæði með henni.

Innan FOSA eru það aðeins félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögum sem leggja niður störf en ákvörðun um verkfallsaðgerðir félagsmanna hjá ríkinu verður tekin siðar.

Fyrsta verkfallið tekur gildi á miðnætti mánudaginn 9. mars og stendur í tvo sólarhringa, eða út þriðjudag. Þrenn tveggja daga verkföll og tvenn eins dags verkföll hafa verið boðuð með um viku millibili fram í byrjun apríl. Verði enn ósamið skellur á ótímabundið allsherjarverkfall frá miðnætti miðvikudaginn 15. apríl.

Á Austurlandi er helst von á að verkfallið hafi áhrif á ófaglært starfsfólk leikskóla, grunnskóla og íþróttamannvirkja auk almenns skrifstofufólks sveitarfélaga.

Samninganefndir eru að störfum og segist Þórður Vilberg Guðmundsson, formaður FOSA, vonast til að samningar takist fyrir þann tíma. „Verkfall er neyðarúrræði og samninganefnd okkar leggur sig fram um að ná samningum. Samningar hafa hins vegar verið lausir í heilt ár og þess vegna erum við tilbúin til aðgerða.“

Verkfallsdagar FOSA eru sem hér segir:
Mánudagur 9. mars og þriðjudagur 10. mars.
Þriðjudagur 17. mars og miðvikudagur 18. mars.
Þriðjudagur 24. mars.
Fimmtudagur 26. mars
Þriðjudagur 31. mars og miðvikudagur 1. apríl
Ótímabundið allsherjarverkfall frá og með miðvikudegi 15. apríl

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.