Ferðamaður lést við Stuðlagil

Ferðamaður, sem féll í Jökulsá við Stuðlagil í dag, fannst látinn um klukkan fimm í dag eftir leit.

Í tilkynningu lögreglunnar á Austurlandi segir að ferðamaðurinn hafi verið erlend kona á fertugsaldri á ferð ásamt öðrum einstaklingi. Hún hafi fundist látin í ánni skammt neðan við gilið.

Tilkynning um manneskju í ánni við gilið barst lögreglu um klukkan hálf þrjú í dag. Björgunarsveitir víða af Austurlandi voru kallaðar út ásamt sjúkraliði og lögreglu. Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið og var nýkomin á staðinn á þeim tíma sem leitinni lauk.

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónnn hjá lögreglunni á Austurlandi, segir aðgerðir við Stuðlagil hafa gengið vel. Slæmt farsímasamband er þó í gilinu sjálfu. Möguleiki var talinn á að sterkir straumar árinnar hefðu hrifið konuna með sér og borið hana niður farveginn. Ráðstafanir voru því gerðar meðfram ánni til leitar.

Lögreglan á Austurlandi rannsakar tildrög atviksins. Ekki er hægt að veita nánari upplýsingar að svo stöddu en að enginn grunur er um annað en slys.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.