Fjallvegir mokaðir þegar veðrið gengur niður
Beðið er með allan mokstur á fjallvegum á Austurlandi þar til stórhríðin sem þar hefur geisað í nótt og morgun gengur niður. Reynt verður að hreinsa vegi á láglendi eftir sem kostur er.Ófært hefur verið til Seyðisfjarðar, Vopnafjarðar, Akureyrar og Borgarfjarðar í morgun.
Leiðirnar voru opnaðar í gær en lokuðust aftur í gærkvöldi. Á Fjarðarheiði var rudd einbreið lína í gegn sem lokaðist aftur þegar tók að skafa um kvöldmatarleitið.
Þar snjóar enn og skefur enda vindur stöðugur um 20 m/s. Aftur má reikna með að einbreitt verði í gegn þegar opnað verður seinni partinn í dag.
„Við leggjum í fjallvegina þegar veðrið gengur niður. Það getur dregist fram eftir degi,“ segir Magnús Jóhannsson hjá Vegagerðinni í Fellabæ.
Ruðningsbíll á leiðinni inn í Hallormsstað lenti í minniháttar vandræðum í morgun. Mokað var inn í Hallormsstað og út í Eiða í morgun en lögð verður áhersla á að hreinsa alla vegi á Héraði í dag. Þar er rigning og slydda en spáð frosti í kjölfarið sem myndað getur mikla hálku ef ekki tekst að hreinsa vegina.