Fjarðarheiðin lokaðist á meðan hátt í 20 bílum var hjálpað niður
Veginum yfir Fjarðarheiði var lokað laust fyrir klukkan ellefu í dag vegna bíla þar í vanda. Verkstjóri hjá Vegagerðinni segir ekki sumardekkjafæri þar.„Það er snjóar á heiðinni en það er nokkur hiti í veginum. Við þær aðstæður límist snjórinn í veginn og myndar hálku. Við höfum verið að reyna að hálkuverja og hreinsa veginn.
Færðin er í sjálfu sér ekki slæm en það varð vandamál í Norðurbrúninni vegna illa búinna bíla. Við ákváðum að loka heiðinni meðan verið væri að ná þeim niður,“ segir Jens Hilmarsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Fellabæ. Vegurinn var opnaður aftur upp úr hádegi og stóð lokunin í um einn og hálfan tíma.
Norræna kom í morgun til Seyðisfjarðar og með henni bílar á sumardekkjum sem ekki voru búnir til aksturs yfir heiðina. Samkvæmt upplýsingum Austurfréttar frá sjónarvottum voru 17 bílar í vanda. Ferjan fer aftur á morgun en Jens segir viðbúið að Fjarðarheiði muni reynast erfið á meðan ferjan stoppar. Að sögn Jens er „ekki sumardekkjafæri“ á Fjarðarheiði.
Hálkublettir eru á Fagradal, Jökuldalsheiði, Vopnafjarðarheiði og Vatnsskarði en krapi í Skjöldólfsstaðamúla og hált á Möðrudalsöræfum. Jens segir viðbúið að krapi geti myndast víða á leiðinni yfir Fjöllin eftir hádegið. Vegagerðin standi vaktina og eins sé ljóst að hreinsa þurfi fjallvegi í fyrramálið.
Séð niður í Egilsstaði úr Norðurbrún Fjarðarheiðar. Mynd úr safni.