Fjárhús og allt búfé að Unaósi varð eldi að bráð

Fjárhús og hlaða að bænum Unaósi í Hjaltastaðaþinghá eru gjörónýt eftir eldsvoða sem vart varð við eftir hádegi í dag. Allt búfé á bænum auk nokkurra geita urðu einnig eldinum að bráð.

Vegfarandi gerði viðvart um eldinn upp úr klukkan 13 í dag og var slökkvilið Brunavarna á Austurlandi komið á staðinn um klukkustund síðar. Þá var fjárhúsið og hlaða í björtu báli að sögn Haraldar Geirs Eðvaldssonar, slökkviliðsstjóra. Gekk tiltölulega fljótt að ráða niðurlögum eldsins en slökkvilið einbeitti sér jafnframt að því að bjarga áhaldahúsi sem stendur við hlið fjárhússins og gekk það að óskum með hjálp frá veðurguðum því hvasst hefur verið á þessum slóðum í dag. Vindáttin eins hagstæð og hægt var að óska eftir að sögn Haraldar.

Eldsupptök eru ókunn en ábúendur voru að heiman þegar eldurinn kviknaði og breiddist út. Rannsókn málsins er á höndum lögreglu.

Frá vettvangi við Unaós, sem er ysti bærinn í Hjaltastaðaþinghá, um 15:30 í dag. Þá hafði tekist að slökkva allan eld þrátt fyrir nokkuð hvassviðri. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar