Fjármögnun jarðganga áfram skoðuð í vetur
Sameiginleg verkefnastofa fjármála- og innviðaráðuneytisins um framtíðar gjaldheimtu af samgöngum á enn eftir þriðja áfangann af vinnu sinni, sem er að ákveða gjaldtöku af ákveðnum samvinnumannvirkjum, svo sem jarðgöngum. Framkvæmdir á borð við Fjarðarheiðargöng hafa beðið eftir þeirri ákvörðun. Heimastjórn Seyðisfjarðar vill að göngin verði boðin út strax.Þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra, kynnti í gær tillögu að fjárlögum næsta árs skýrði hann frá til standi að leggja á kílómetragjald á alla bíla. Slíkt gjald var lagt á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla um síðustu áramót.
Gjaldtaka af mannvirkjum ákveðin í vetur
Kílómetragjaldið er afrakstur vinnu verkefnastofunnar sem komið var á fót í byrjun árs 2023. Henni var falið það verk að móta tillögur um gjaldheimtu af umferð til framtíðar. Til þessa hefur hún að mestu verið innheimt í formi skatta á eldsneyti. Forsendunum er kippt undan því með nýjum orkugjöfum.
Í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu segir að við upptöku kílómetragjaldsins um næstu áramót verði vörugjöld af bensíni og olíugjald af dísel fellt niður. Kolefnisgjald verður hins vegar hækkað til að viðhalda hvaða til orkuskipta. Kílómetragjaldið tekur tillit til þunga ökutækja og er þannig ætlað að endurspegla það slit farartækisins á vegi. Innleiðing gjaldsins á rafbílana er sagt hafa gengið vel og 97% eigenda slíkra bíla skráð kílómetrastöðuna á Island.is.
Eftir að þessa tillögu er þriðji hluti vinnu verkefnastofunnar enn eftir, sem er að ákveða gjaldheimtu á einstök mannvirki eða tegund þeirra, svo sem í öll jarðgöng. Samkvæmt svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Austurfréttar er stefnt á að sú vinna fari fram í haust og vetur. Það er þó háð framvindu við innleiðingu kílómetragjaldsins.
Heimastjórn vill að útboð Fjarðarheiðarganga hefjist strax
Upphaf framkvæmda við Fjarðarheiðargöng hefur beðið eftir þeirri ákvörðun, en ávallt hefur staðið til að þau yrðu að minnsta kosti hluta fjármögnuð með sértekjum.
Heimastjórn Seyðisfjarðar telur þó óþarft að bíða eftir ákvörðun verkefnastofunnar því ljóst sé hvert stefnt sé. Í ályktun frá fundi hennar í síðustu viku er skorað á fjármála- og efnahagsráðherra annars vegar, innviðaráðherra hins vegar, að heimila Vegagerðinni að hefja undirbúning vegna útboðs ganganna.
Bent er á að þótt verkefnastofan skili af sér á næstu mánuðum verði eftir það minnst þriggja mánaða bið á meðan Alþingi staðfestir tillögur hennar sem lög. Þess vegna sé brýnt að málin samhliða því útboðsferlið taki allt að tólf mánuði.
Vilja að sveitarstjórn fundi með ráðherrum
Í ályktuninni er minnt á að Fjarðarheiðargöng séu hin einu sem tilbúin eru til útboðs. Víðar um landið sé beðið eftir göngum og stjórnvöld verði að sýna vilja til að leysa samgönguvanda þeirra byggða með að hefja jarðgangagerð á ný eftir fjögurra ára hlé. Einnig er komið inn á að gert sé ráð fyrir tengingu áfram til Norðfjarðar um Mjóafjörð í Svæðisskipulagi Austurland og Fjarðarheiðargöng séu ein af forsendum fyrir þróun Múlaþings sem nýs fjölkjarna sveitarfélags.
Heimastjórnin leggur til að sveitarstjórn fundi með ofantöldum ráðherrum auk forsætisráðherra um málið og að auki verði málið tekið upp við þingmenn kjördæmisins. Staða Fjarðarheiðarganga er fyrsta mál á dagskrá sveitarstjórnar Múlaþings sem kemur saman til síns fyrsta fundar að loknu sumarfríi í dag.