Fjölmennur borgarafundur í Neskaupstað
Um 200 manns sóttu borgarafund í Neskaupstað í gærkvöldi. Tilefni fundarins var kynning á skýrslu Capacent Gallup um raunsparnað vegna niðurskurðar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands. Mikil samstaða var fundinum og mættu fjölmargir aðilar frá sveitarfélögum á Austurlandi og lýstu ánægju sinni með skýrsluna.
Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, sagði í framsögu sinni að umræðan í þjóðfélaginu í dag snérist mikið um að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Hann sagði það verkefni hafa tekist á Austurlandi og að hér væri sterkt atvinnulíf. Að mati Páls er það því alveg ómögulegt í ljósi þess árangurs sem náðst hefur í fjórðungnum að verið sé að veikja innviði og grunnstoðir þess með þeim hætti sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir.
Í skýrslunni kemur fram að:
HSA hefur náð árangri við laga starfsemina að fjárveitingum með margháttuðum aðhalds-og hagræðingaraðgerðum. Gangi áform fjárlagafrumvarpsins eftir þarf HSA hins vegar að leggja alfarið niður hluta þeirrar þjónustu sem veitt hefur verið á Austurlandi og vísa sjúklingum á aðrar heilbrigðisstofnanir með tilheyrandi kostnaði hjá þeim stofnunum sem taka munu við sjúklingum frá Austurlandi.
Af því leiðir að kostnaðurinn við meðhöndlun og umönnun sjúklinga færist til innan heilbrigðiskerfisins frá HSA til Landspítala (LSH) og Sjúkrahússins á Akureyri (SA). Miðað við þær leiðbeiningar sem stjórnvöld veita HSA verður áherslan sú að hverfa því sem næst alfarið frá rekstri handlækningasviðs á Fjórðungssjúkrahúsinu á Norðfirði (FSN). Talið er að samhliða verði því sem næst alfarið horfið frá því að veita endurhæfingu í fjórðungnum og að fæðingarþjónusta leggist af.
· Miðað við þessar forsendur er það mat ráðgjafa að líklegt sé að hrein fjárhagsleg áhrif tillagnanna í fjárlagafrumvarpinu á ríkissjóð nemi um 68,2 m.kr. í stað þeirra 466,8 m.kr. sem eru boðuð fjárhagsleg áhrif tillagnanna á ríkissjóð samkvæmt fjárlagafrumvarpi. Að mati ráðgjafa er hér er um varfærið mat að ræða og leitast var við að gæta fyllstu sanngirni við mat á öllum kostnaði og byggja í sem ríkustum mæli á þekktum tölum frá opinberum aðilum.
Byggir það mat í fyrsta lagi á upplýsingum um notkun íbúa á Austurlandi á árinu 2009 á þeirri þjónustu sem leggjast mun af á HSA og gera þarf ráð fyrir að verði sinnt á LSH og SA. Í öðru lagi byggir það á að viðkomandi meðhöndlun og hjúkrun er reiknuð til kostnaðar fyrir LSH og SA miðað við DRG greiningar þær sem LSH hefur gefið út fyrir árið 2010. Í þriðja lagi er lagt mat á aðra tilfærslu kostnaðar þ.e. vegna aukinna sjúkraflutninga, aukins sjúkraflugs, neyðarflugs með þyrlum og áhrif á greiðslur frá Sjúkratryggingum Íslands og Tryggingastofnun Íslands.
Hér er einungis um að ræða mat á beinum fjárhagslegum áhrifum á útgjöld ríkissjóðs en að auki koma til veruleg neikvæð afleidd áhrif á íbúa, sveitarfélög og starfsemi fyrirtækja á Austurlandi. Fjallað er um afleidd áhrif í greinargerðinni en ekki lagt beint fjárhagslegt eða þjóðhagslegt mat á þau.