Ein umsókn um prestsstöðu í Egilsstaðaprestakalli

Ein umsókn barst um embætti prests í Egilsstaðaprestakalli, en frestur til að sækja um starfið rann út í byrjun vikunnar. Hreyfing er á prestum á Austurlandi þar sem nýbúið er að auglýsa lausa stöðu prests í Austfjarðaprestakalli og staða í Hofsprestakalli á leið í slíkt ferli.

Jarþrúður Árnadóttir, prestur á Þórshöfn, er eini umsækjandinn um prestsstöðuna á Egilsstöðum. Hún losnaði eftir að Kristín Þórunn Tómasdóttur var skipuð í Skálholtsprestakall.

Þá er búið að auglýsa stöðu í Austfjarðaprestakalli en Bryndís Böðvarsdóttir, prestur í Neskaupstað frá 2022, er að taka við Fossvogsprestakalli. Hún hefur verið í leyfi að undanförnu en hafði áður óskað eftir flutningi í starfi til Reykjavíkur, að því er fram kemur í svari Biskupsstofu við fyrirspurn Austurfréttar.

Í auglýsingu segir að miðað sé við að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst, í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að niðurstaða um ráðningu liggur fyrir. Umsóknarfrestur er til 30. september. Prestakallið nær frá Mjóafirði til Djúpavogs en væntanlegur prestur hefur sérstakar skyldur við sóknirnar á Eskifirði, Reyðarfirði og í Neskaupstað.

Þessu til viðbótar er laus staða sóknarprests í Hofsprestakalli eftir að Þuríður Björg Wiium Árnadóttir var ráðin prestur í Hafnarfjarðaprestakalli. Hún hefur verið sóknarprestur í Hofsprestakalli frá árinu 2017. Hún hefur hins vegar leyst af sem sjúkrahúsprestur á Landsspítalanum frá því í nóvember 2023. Á þeim tíma hefur einkum Jarþrúður sinnt embættisskyldunum frá Þórshöfn.

Samkvæmt reglum Þjóðkirkjunnar á að fara fram þarfagreining sem er í raun gerð starfslýsingar í samvinnu Biskupsstofu og sóknarnefnda fyrir væntanlegt embætti áður en starfið er auglýst. Það ferli er að fara í gang fyrir Hofprestakall.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.