Fjögur útboð á þremur vikum

Vegagerðin áformar að bjóða út fjórar af helstu framkvæmdum ársins á Austurlandi á næstu þremur vikum. Útboð um nýja brú yfir Gilsá í Skriðdal var auglýst um helgina.

Í útboðslýsingu fyrir framkvæmdina kemur fram að gera eigi nýjan veg á 1,2 km kafla auk 46 metra langrar brúar. Útboðsgögnin eru aðgengileg frá og með deginum í dag. Mánuður er gefinn til að skila inn tilboðum. Gert er ráð fyrir að verkinu verði lokið 15. ágúst á næsta ári.

Þar með eru hafin útboð á stórframkvæmdum á Austurlandi í sumar. Þykir mörgum það fullseint á ferðinni, meðal annars sveitarstjórn Múlaþings, sem gagnrýndi tafirnar á síðasta fundi sínum.

Í svari við fyrirspurn Austurfréttar segir Sveinn Sveinsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar, að því miður hafi undirbúningur útboðsverkanna tekið talsvert lengri tíma en áætlað var. Þar spili margt inn í: Verkin hafi að hluta til verið meiri og flóknari en upphaflega var talið, til dæmis vegna ýmissa forrannsókna, athugana á efnistöku auk samskipta við stofnanir og aðra hagsmunaaðila. Þá hafa forföll og þar með mannaskipti í verkefnum einnig haft áhrif.

Eftir viku, 5. júlí, verður auglýst útboð á Borgarfjarðarvegi. Til til stendur að endurbyggja 14,8 km kafla milli Eiða og Laufáss. Þann 12. júlí verða síðan auglýst útboð á annars vegar 4 km kafla milli Gilsár og Arnórsstaða á Jökuldal hins vegar öðrum 5 km um Ásklif í Fellum.

Áætluð verklok í öllum þessum framkvæmdum eru árið 2022.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar