Fjöldi bíla beið þess að komast yfir Fagradalinn

Bílaröð, sem teygði sig frá lokunarskilti vegarins upp úr Reyðarfirði út að hesthúsahverfi Reyðfirðinga, myndaðist áður en lagt var af stað var af stað með fylgdarakstur yfir Fagradal seinni partinn í dag.

Vegurinn yfir Fagradal lokaðist um hádegisbilið í dag. Þar hefur verið mikill skafrenningur, einkum í svokölluðum Græfum. Ekki hefur tekist að opna nema einbreiða línu eftir veginum og því ekki talið ráðlagt að leyfa akstur í báðar áttir.

Um klukkan þrjú voru boð út látin ganga um að farinn yrði fylgdarakstur yfir dalinn klukkan fimm. Fjöldi Héraðsbúa vinnur niður á Reyðarfirði, einkum á álverslóðinni og voru þá á leið heim úr vinnu.

Samkvæmt upplýsingum frá Björgunarsveitinni Ársól á Reyðarfirði náði bílaröðin frá lokunarskiltinu við Melshorn út að hesthúsabyggðinni, um 1,5 km leið, áður en hersingin lagði af stað um klukkan tíu mínútur yfir fimm. Erfitt er að segja til um hversu margir bílar voru í röðinni, en samkvæmt teljara Vegagerðarinnar fóru 87 bílar yfir dalinn á 10 mínútna tímabili á sjötta tímanum.

Strax eftir að fyrsti hópurinn fór af stað var farin að myndast ný röð bíla sem bíða þess að komast yfir Fagradal. Fyrirhugaðar eru ferðir frá Egilsstöðum klukkan 19:30 og Reyðarfirði 20:30. Miðað er við fjórhjóladrifnabíla.

Mynd: Aðsend


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.