„Flygildið þegar virkað betur en við þorðum að vona“

Reynsla af notkun flygildis til eftirlits á hafsvæðum í kringum Ísland hefur þegar verið betri en vænst var í upphafi. Fimmtán manna starfslið fylgir flygildinu.

„Flygildið hefur þegar virkað flottar og betur en við þorðum að vona,“ segir Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.

Flygildið hefur verið á Egilsstöðum frá miðjum apríl og verður fram í miðjan júlí. Það kemur hingað til lands á vegum Evrópsku siglingamálastofnunarinnar (EMSA) sem að beiðni Landhelgisgæslunnar.

Það er nýtt til eftirlits á hafsvæðinu í kringum landið. Þegar hefur verið lögð fram kæra í einu brottkastmáli sem uppgötvaðist í flugi. Öðru sinni tókst að hafa uppi á bát sem datt út af ferilvöktunarkerfum og þar með koma í veg fyrir útkall.

Með flygildinu eystra eru átta flugmenn. Með flugvirkjum og öðrum aðstoðarmönnum telur hópurinn 14-15 manns hverju sinni. Starfsmennirnir koma allir erlendis frá en flugið eystra nýtist til æfinga og prófana með flygildið.

Þeim til aðstoðar er starfsmaður í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Reykjavík. Sá sér bæði hvar flygildið er staðsett og það sem myndavél þess nemur og getur gefið flugmönnunum upplýsingar um að hvert eigi að fljúga ef eitthvað þarf að skoða nánar. Flygildinu er stýrt í gegnum gervitungl.

Aldrei áður hefur jafn stórt flygildi verið notað við gæslu á sjó á vegum EMSA. Flygildið er af gerðinni Elbit Hermes 900. Það er 8,3 langt og með 15 metra vænghaf. Það vegur 1,1 tonn, getur borið 350 kíló, náð allt að 220 km/klst hraða. Flugþol þess er 800 km og það er búið búnaði til að koma í veg fyrir að ísing myndist á því. Vegna stærðar sinnar þarf það flugbraut til að taka á loft.

Það er útbúið bæði myndavél og radar sem getur numið hluti í allt að 100 sjómílna radíus og smáhluti niður í 40 sjómílur. Ennfremur getur það numið neyðarboð og sent áfram til stjórnstöðvar.

Framkvæmdastjóri EMSA ásamt fylgdarliði kom austur til að skoða flygildið í gær. Vegna veðurs var ekki hægt að fljúga því þá, en alls hafa sjö flugdagar fallið niður frá því það hóf sig fyrst á loft.

Það hefur farið í 24 flug sem hvert hefur varað að meðaltali í 7,23 tíma sem eru 180 tímar í heildina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar