Fóðurpramminn Muninn verður á hafsbotni þar til haustið 2022

Umhverfisstofnun féllst á rök Laxa fiskeldis fyrir því að fresta björgun fóðurprammans Munins sem nú liggur á hafsbotni á Reyðarfirði. Stefnt er að því að honum verði lyft af hafsbotni haustið 2022 þegar eldislotu sjókvíana í kring er lokið.


Níunda janúar síðastliðinn gekk yfir óveður á Austfjörðum sem olli því að fóðurpramminn Muninn sem er í eigum Laxa fiskeldis sökk á hafsbotn Gripalda á Reyðarfirði. Dísilolía sem var á prammanum hefur verið fjarlægð en fóður er enn um borð.


Fulltrúar Laxa fiskeldis, hafnaryfirvöld í Fjarðabyggð, Umhverfisstofnun auk köfunarþjónustu og tryggingafélags Laxa fiskeldis héldu fund í byrjun júní þar sem farið var yfir stöðu mála. Þar óskaði Umhverfisstofnun eftir því að Laxar gæfu upplýsingar sem allra fyrst um áætlanir og tímasetningar á því hvenær prammanum yrði lyft af hafsbotni.

 

Áhættan talin of mikil
Í byrjun júlí sendi Laxar fiskeldi beiðni til Umhverfisstofnunar um að fresta lyftingu fóðurprammans af hafsbotni til haustsins 2022. Aðalástæður þeirrar frestunar eru sagðar tvær samkvæmt Umhverfisstofnun:

1. „Áhættan er metin of mikil að lyfta prammanum fyrr í ljósi þess að ankerislínur fyrir „ramma“ eldisstöðvarnar eru nálægt. Ef eitthvað fer úrskeiðis í lyftingu prammans gæti hann lent á ankerislínu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.“


2. „Dæla þarf fóðri úr tveimur til fjórum fóðursílóum til að létta prammann og telur rekstraraðili að það sé ekki ásættanlegt að vera með eldisfisk í kvíum svo nálægt þegar sú aðgerð á sér stað.“

Með þessum rökum töldu Laxar að vænlegra væri að koma prammanum af hafsbotni eftir núverandi eldislotu og búið væri að tæma eldissvæðin af fiski til að minnka skaðann.

Umhverfisstofnun féllst á þessi rök Laxa og samþykkt að björgun prammans sé frestað til haustsins 2022. Fór stofnunin fram á að aðgerðaráætlunin myndi standa þrátt fyrir frestun og verði prammanum ekki lyft að lokinni slátrun haustið 2022 krefst stofnunin þess að „að eldissvæðið verði hvílt þar til brottnám prammans er lokið.“

Hafnarstjórn Fjarðabyggðar hefur hvatt til þess að meðan á fóðurpramminn er á hafsbotni muni vera gott eftirlit með ástandi fóðurprammans af umhverfis- og öryggissjónarmiðum.

 

Myndin sýnir þegar nýr fóðurprammi, sem kom í stað Munins, var hífður úr flutningaskipi á Eskifirði fyrr á þessu ári. Mynd: Jens Garðar Helgason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar