„Fólk er harmi slegið yfir atburðum vikunnar“

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og íbúi í Neskaupstað, segir íbúa þar harmi slegið eftir svipleg dauðsföll í vikunni. Áfallamiðstöð verður opnuð í félagsheimilinu á morgun til að styðja við íbúa.

„Það er mikil sorg og fólk er harmi slegið yfir atburðum vikunnar. En ég finn líka mikla samheldni og hlýhug þótt fólk sé eflaust dofið eins og gerist í mikilli sorg,“ segir Jón Björn.

Karlmaður á fertugsaldri úr bænum lést þegar hann varð fyrir voðaskoti á gæsaveiðum á þriðjudag. Í dag fundust hjón látin í heimahúsi og er talið að andlát þeirra hafi borið að með saknæmum hætti. Einn er í haldi vegna málsins.

Klukkan 18 var haldin minningarstund í Norðfjarðarkirkju um manninn sem lést í slysinu. Söfnun er hafin til að styðja við fjölskyldu hans.

„Þetta var fjölsótt og verulega falleg minningarstund sem Sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir og Sr. Benjamín Hrafn Böðvarsson leiddu. Í lok hennar var ljós vonar tendrað og fólk minnt á að sýna kærleik og hlýju í samfélaginu á Austurlandi. Prestarnir bættu því við að kertin væru líka tendruð fyrir atburði dagsins,“ segir Jón Björn.

Fólk frá Rauða krossinum og Heilbrigðisstofnun Austurlands, með þjálfun í áfallahjálp, voru með stund og veittu viðtöl í safnaðarheimilinu eftir minningarathöfnina. Á morgun verður áfallamiðstöð opnuð í félagsheimilinu Egilsbúð.

„Hún verður opin næstu daga og við hvetjum fólk til að nýta sér þá þjónustu fagfólks sem þar verður í boði. Það er mikilvægt að í öllum svona áföllum nýti fólk sér þau úrræði sem í boði eru til að vinna úr þeim. Þannig gerum við þetta saman,“ segir Jón Björn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar