Fordæma „aðför“ sveitarfélaga að Hraunasvæðinu

Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST) fordæma viðbrögð og aðför sveitarfélaga og sérhagsmunaafla að verndun Hraunasvæðisins en bæði Múlaþing og Fjarðabyggð hafa gagnrýnt það álit verkefnastjórnar fimmta áfanga rammaáætlunar að Hamarsá í Hamarsdal skuli fara í verndarflokk.

Mjög var rætt um málið á aðalfundi samtakanna fyrr í mánuðinum en kunngjört var í vor það álit verkefnastjórnar rammaáætlunar að vernda bæri Hamarsá og nærliggjandi svæði en um er að ræða hálendið upp að syðstu fjörðum Austfjarða. Lengi hefur verið unnið að undirbúningi virkjunar árinnar af hálfu fyrirtækisins Arctic Hydro.

Í kjölfar álits verkefnastjórnar kom fram gagnrýni á verndunartillöguna frá bæði Múlaþingi og Fjarðabyggð en sérstaklega í síðarnefnda sveitarfélaginu er mikil andstaða við það mat enda sé sú virkjun mikilvæg orkuöryggi og uppbyggingu í fjórðungnum.

NAUST fyrir sitt leyti fagnar mjög niðurstöðu verkefnastjórnarinnar og kallar jafnvel eftir friðlýsingu svæðisins í heild sinni. Lýsi enda skýrslur faghópa háu verndargildi svæðisins. Þá er gagnrýnt í yfirlýsingu samtakanna hvaða fyrirtæki það séu sem að málum komi:

Þá er það ámælisvert að sveitarfélög á Austurlandi vilji fórna restinni af Hraunasvæðinu fyrir erlent orkufyrirtæki sem hyggur þar að auki á að selja orkuna öðru erlendu orkufyrirtæki sem fóðra á efnaverksmiðju sem spákaupmenn hafa sett á dagskrá í tilraunaskyni við þróun rafeldsneytis. [...] Aðalfundur NAUST 2024 kallar því eftir friðlýsingu svæðisins og vísar í skýrslur faghópa rammaáætlunar, sem rökstyðja hátt verndargildi og lýsa alvarlegum umhverfisafleiðingum af fyrirhuguðum virkjunaráformum. Mikilvægt og áríðandi er að veita þessum víðernum þá vernd sem þau þarfnast og leyfa þeim að vera og þróast á eigin forsendum til langrar framtíðar.“

Á myndinni má sjá lón Hamarsvatns þegar búið verður að virkja eins og áætlanir gefa til kynna. Mynd Orkustofnun

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar