Framboðin ganga óbundin til kosninga

Framboðin fjögur í Fjarðabyggð gefa ekki upp með hverjum þau vilji helst starfa í meirihluta að loknum kosningunum á laugardag þótt íbúar í Neskaupstað vildu vita það á framboðsfundi þar á mánudagskvöld.

„Ég get unnið með hverjum sem er, það er eðli sveitarstjórnarmála. Við skulum sjá hvernig úrslitin verða, ég vona sannarlega að Framsóknarflokkurinn verði í hreinum meirihluta,“ sagði Jón Björn Hákonarson, oddviti flokksins.

Bæði fulltrúar Miðflokksins og Fjarðalistans svöruðu því til að framboðin gengju óbundin til kosninga. „Það fer eftir hverjir vilja vinna með okkur,“ svaraði Guðmundur Þorgrímsson, þriðji maður á lista Miðflokksins.

Ásakaður um slaka mætingu

Svar Jens Garðars Helgasonar, oddvita Sjálfstæðisflokksins, var hins vegar það sem vakti mesta athygli. Skömmu áður hafði stjúpdóttir Guðmundar, sem jafnframt situr á lista Miðflokksins, spurt Jens út í mætingu hans sem formanns bæjarráðs á fundi ráðsins en hún sagði fundargerðir ráðsins sýna að mæting Jens hefði verið slök.

„Við höfum svarað oddvita Miðflokksins kvöld eftir kvöld en mér sýndist lágkúran ná nýjum lægðum þegar stjúpdóttir hans fer að spyrja um mætingu mína í bæjarráð. Þar með held ég að hafi fækkað um einn flokk í mögulegu samstarfi.

Ég held að hún ætti að læra að telja, eða Guðmundur. Ég tók mér launalaust leyfi í 6-7 mánuði, sem er ekki óalgegnt. Ég hef setið í ráðinu í tólf ár og verið með mjög góða mætingu, það hefur nánast ekkert þurft að leysa mig af,“ sagði Jens og vísaði til leyfis sem hann tók árið 2016 til að gegna störfum framkvæmdastjóra Samtaka í fyrirtækja, þar sem hann er formaður, meðan leitað var að nýjum framkvæmdastjóra.

Guðmundur, sem kom næstur í ræðustólinn, var fljótur til svars. „Jenni klikkaði ekki á að fara í manninn en ekki málefnin.“

Spurningunni var einnig beint til Jóns Björns og hvort hann teldi mætinguna ásættanlega. „Ég verð bara að bera ábyrgð á sjálfum mér,“ svaraði hann.

Ræða meira um stefnumál annarra en sín eigin

Bæði Miðflokkurinn og Fjarðalistinn notuðu tækifærið á þessum síðasta framboðsfundi til að þjarma að meirihlutanum, einkum Sjálfstæðisflokknum. Einar Már Sigurðsson, Fjarðalista, rifjaði upp að fyrir fjórum árum hefðu frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins kynnt hugmynd um að leggja Nesgötu í stokk milli grunnskólans og nýs leikskóla. „Eina sem við höfum heyrt um þá brú er úrvals danskur þáttur sem heitir Brúin.“

Einar Már hélt því einnig fram að fullyrðing í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins um afnám tekjutengingu fasteignagjalda eldri borgara héldi ekki vatni. Fasteignagjöld samanstandi meðal annars af lóðaleigu, holræsagjaldi og fleiri gjöldum sem ekki séu tekjutengd. Frambjóðendur Miðflokksins héldu áfram gagnrýni sinni á rekstur sveitarfélagsins.

„Ég get verið stoltur af Sjálfstæðisflokknum, það eru margir frambjóðendur sem segja frekar frá því sem flokkurinn hefur gert en hvað þeir ætla að gera,“ svaraði Jens Garðar.

Ólögleg gjaldtaka af gámum?

Fundargestir sóttu einnig að meirihlutanum, til dæmis var spurt út í innheimtu stöðuleyfa fyrir gáma og fullyrt að bæði væri gjaldskrá þeirra hærri en annars staðar og að ekki stæðist lög að rukka þau eftir fermetraverði. Annar fyrirspyrjandi hélt því fram að sveitarfélagið mismunaði gámaeigendum.

Jón Björn, sem verið hefur formaður eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar, svaraði því til að honum væri ekki kunnugt um að gjaldheimtan væri ólögleg. Leyfunum og gjaldheimtunni hefði verið breytt í vetur eftir athugasemdir frá Mannvirkjastofnun og brugðist yrði við öðrum vanköntum sem á henni og leyfisveitingunum kynni að vera.

Norðfirðingar spurðu einnig út í eflingu Verkmenntaskóla Austurlands, einkum með bættum samgöngum fyrir nemendur. Dýrunn Pála Skaftadóttir, Sjálfstæðisflokki, svaraði að ekki væri nóg að efla samgöngur heldur þyrfti að efla kynningu á skólanum og verknámi almennt í grunnskólum.

Nokkuð var spurt út í þjónustu við eldri borgara, viðgerðir á húsum í Breiðabliki og uppbyggingar á húsnæði fyrir bæði yngra og eldra fólk. Frambjóðendur lýstu vilja sínum til að sinna viðhaldi á Breiðabliki og skýrðu frá að til stæði að byrja á íbúðum þar strax í sumar. Eydís benti á að í stefnuskrá Fjarðalistans væri fyrirheit um að leita lausna í íbúðamálum en fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks svöruðu að fleiri yrðu að koma að þeirri vinnu en sveitarfélagið, meðal annars ríkið.

Nóg til af 70 milljónum

Frambjóðendur af neðri hluta lista Sjálfstæðisflokksins hafa nýtt tækifærin á fundunum til að spyrja fulltrúa annarra flokka út í stefnumál þeirra, einkum hefur verið spurt út í fyrirheit Miðflokks og Fjarðalistans um fríar máltíðir fyrir öll skólabörn.

Eydís Ásbjörnsdóttir, oddviti Fjarðalistans, nýtti tækifærið til að minna á langtímaáætlanir og stefnur vantaði víða í rekstri Fjarðabyggðar. Tilkoma þeirra og eftirfylgni með þeim myndi spara tíma og peninga síðar. „Það er sláandi að ekki eru til neinar langtíma áætlanir um mannvirki, gatnakerfi eða veitur.“

Rúnar Gunnarsson, oddviti Miðflokksins, sagði að kostnaður við máltíðirnar væri 70 milljónir en velta sveitarfélagsins 7 milljarðar. „Við ætlum að taka til í fjármálum sveitarfélagsins og þegar ég verð búinn að taka örlítið til verður til fullt af 70 milljónum.“

Sjálfstæðismenn voru á móti spurðir hvernig þeir hygðust fjármagna fyrirheit um lækkanir á álögum. Jens Garðar svaraði því til að með áframhaldandi lækkunum skulda myndi svigrúmið í fjármálunum aukast. Afborganirnar færu að lækka eftir tvö ár.

Kynjahalli í stjórnsýslunni fremur en pólitíkinni

Þá var sérstakri spurning spurt til þeirra kvenna sem starfa í framboðunum um hvernig þeim þyki að taka þátt í stjórnmálum í Fjarðabyggð sem þyki karllægt samfélag.

Dýrunn Pála benti á að konur væru formenn í fjórum af sex nefndum sveitarfélagsins og hlutfallið jafnt meðal nefndafulltrúa. Hún sagðist hafa fundið fyrir stuðningi frá sínum flokkssystkinum þau ár sem hún hefði starfað í stjórnmalum.

Eydís er fyrst kvenna til að leiða framboð í Fjarðabyggð en hún hefur setið í bæjarstjórn frá 2010 og bæjarráð frá 2013. Hún sagði það krefjandi en kynjahalli innan stjórnsýslunnar olli henni mestum áhyggjum. „Það er bara ein kona sviðsstjóri. Um það verðum við að vera meðvituð og laga ef þess er kostur.

Ég tek reyndar farm að ég hef ekki borið neinn skaða af þessu samstarfi – þótt ég hafi reyndar misst heyrn,“ grínaðist hún.

Pálína Margeirsdóttir, Framsóknarflokki, sagðist upplifa að litið væri á hana sem jafningja í nefndum og ráðum. Hins vegar væri fundartíminn seinni part dags ófjölskylduvænn. Hún kvartaði einnig undan að konur gæfu ekki kost á sér.

„Það vantar fleiri konur sem eru tilbúnar að taka slaginn. Okkur gekk vel að manna listann okkar en við fundum aðallega fyrir áhuga karla. Við erum enn að toga í konurnar og það er áhyggjuefni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.