Frjáls framlög ferðamanna við Hafnarhólma þetta ár tæpar þrjár milljónir króna
Þeir rúmlega 66 þúsund ferðamenn sem hafa heimsótt Hafnarhólma á Borgarfirði eystra þetta árið samkvæmt mælingum Ferðamálastofu hafa látið tæplega þrjár milljónir af hendi rakna í frjáls framlög vegna heimsókna sinna. Það deilist niður sem kringum 44 krónur á gest.
Þetta annað árið í röð sem óskað er eftir frjálsum framlögum þeirra sem staðinn sækja en fjármagn hefur lengi vantað til rannsókna á fuglalífinu og áhrifum tugþúsunda ferðamanna á þeirra atferli, ráða landvörð eða verði á svæðið en ekki síður til að bæta enn þjónustustig í þjónustuhúsinu við hólmann.
Upphaflegar hugmyndir heimastjórnar fyrir tveimur árum síðan voru að taka upp hreina og beina gjaldskyldu og þá reiknað út að miðað við 50 þúsund gesti sem hver um sig greiddi 500 krónur fyrir náinn aðgang lundanum og æðafuglum að tekjurnar orðið um 25 milljónir króna árlega. Frjálsu framlögin þau tvö ár sem eftir þeim hefur verið óskað óraveg frá þeirri upphæð.
Eyþór Stefánsson, formaður heimastjórnar Borgarfjarðar eystri, segir gjaldtöku vissulega enn koma til greina en málið hafi þó ekki formlega verið rætt innan heimastjórnar um tíma. Ótvírætt sé þó að gjaldskylda færi bæði staðnum og Múlaþingi mun hærri tekjur en núverandi fyrirkomulag.
„Það eru auðvitað nokkuð háleit markmið innan bæði heimastjórnarinnar, Múlaþings og eins Fuglavernd sem á hólmann að gera betur en nú er. Meðal þess er að byggja upp einhverja spennandi aðstöðu á þriðju hæð þjónustuhússins. Fjármagn vantar til rannsókna því enginn veit í raun hvaða áhrif síaukinn ferðamannafjöldi hefur á fuglalífið. Þá vantar sárlega landvörð sem gæti fylgst með að fólk trufli fuglana ekki um of eða setji jafnvel á loft dróna sem hafa augljós áhrif. Tæpar þrjár milljónir sem fengist hafa í kassann þetta árið dugar engan veginn fyrir neinu slíku.“