Skip to main content

Fyrirtækjum gengur illa að ráða fólk þrátt fyrir atvinnuleysi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. mar 2012 18:12Uppfært 08. jan 2016 19:22

2008_02_rodmill_2_small.jpg
Mörgum austfirskum fyrirtækjum gengur illa að ráða fólk þrátt fyrir atvinnuleysið á svæðinu. Ein af ástæðunum er talin vera óhentugur opnunartími leikskóla. Sveitarfélögin eru hvött til að endurskoða hann. Atvinnuleysi hefur minnkað á svæðinu.

Þetta kemur fram í bréfi frá Vinnumarkaðsráði sem sent var austfirskum sveitarstjórnum í síðasta mánuði. Þrátt fyrir að um 300 manns séu skráðir án atvinnu á svæðinu eiga fyrirtæki oft í vandræðum með að ráða fólk.

„Skýringin á því er oft sú að ekki fara saman opnunartímar leikskóla og vinnutímar fyrirtækja,“ segir í bréfinu. Því er því beint til sveitarstjórnanna að skoða hvort hægt sé að hafa skólana opna frá klukkan sjö á morgnana.

Í febrúar voru að meðaltali 277 skráðir atvinnulausir eða 4,3%. Það er um 100 manns minna en á sama tíma í fyrra og lítillega færri en í janúar. Atvinnuleysi meðal karla er 3,3% en 5,6% meðal kvenna. Flestir eru skráðir atvinnulausir í Fjarðabyggð, 115 en 99 á Fljótsdalshéraði. Flestir atvinnulausra á Austurlandi eru á aldrinum 20-35 ára.

Fjórtán laus störf voru skráð hjá Vinnumálastofnun á Austurlandi í febrúar. Aðeins á Suðurlandi og á Höfuðborgarsvæðinu eru fleiri laus störf skráð. Þau eru fjórum fleiri en í janúar og tíu fleiri en á sama tíma en í fyrra.