Gangandi vegfarendur í Norðfjarðargöngum

Lögreglan á Austurlandi sinnti heldur óvenjulegu verki í morgun þegar vísa þurfti dilkrollu út úr Norðfjarðargöngum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var ærin og lömb hennar tvö komin þrjá kílómetra inn í göngin þegar laganna verði bar að garði og gerðu þríeykinu það ljóst að þau þyrftu að fara aftur til baka til Eskifjarðar.

Það mun hafa gengið ágætlega og aðilar málsins verði samvinnuþýðir, þótt þeir hafi farið frekar hægt yfir. Þá kemur fram í bókun lögreglunnar að allir aðrir þeir sem leið áttu um göngin hafi sýnt góða biðlund, þótt einhver töf hafi verið á umferð ökutækja.

Undanfarnir dagar hafa að öðru leyti verið stórtíðindalausir í lögregluumdæminu.

Mynd: Jeff Clemmensen

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar