Grannaslagur fyrir opnum tjöldum í kvöld

„Það er vissulega mjög áhugavert að dragast á móti þeim,“ segir Jökull Logi Sigurbjarnarson, meðlimur liðs Verkmenntaskóla Austurlands í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna. Skólinn mætir grönnum sínum í Menntaskólanum á Egilsstöðum í annarri umferð keppninnar í kvöld.

 Auk Jökuls Loga eru þær Marta Guðlaug Svavarsdóttir og Hekla Gunnarsdóttir í liði Verkmenntaskólans, en þau sigruðu Menntaskólann á Ísafirði í hörku viðureign í fyrstu umferð keppninnar með 31 stigi gegn 29.

Lið Menntaskólans á Egilsstöðum skipa þau Ása Þorsteinsdóttir, Björgvin Ægir Elísson og Kristófer Dan Stefánsson, en það vann Menntaskólann á Laugarvatni með 39 stigum gegn 15 í fyrstu umferð. Frétt um það má lesa hér.

Liðin mættust síðast árið 2006

Eftir að dregið var í aðra umferð síðastliðinn föstudag var það ljóst að um grannaslag yrði að ræða. Liðin mættust síðast árið 2006, í fyrstu umferð keppninnar, þar sem ME hafði betur með 16 stigum gegn 14.

Sigurlið kvöldsins fer áfram í sjónvarpshluta keppninnar. Menntaskólinn á Egilsstöðum komst í undanúrslit í fyrra og Verkmenntaskólinn hefur einu sinni komist í þann hluta, en það var árið 2002 og komst liðið þá í undanúrslit.

Stressið rennur af þegar hann sest í keppnisstólinn

„Við erum mjög vel stemmd og erum búin að vera að æfa í allan dag. Að sjálfsögðu stefnum við á sigur sem þá skilar okkur í sjónvarpshluta keppninnar,“ segir Jökull Logi. Aðspurður um hvort stressið segi ekki til sín og hafi áhrif á keppnina segir hann; „Ég er mjög stressaður fram að keppni, en þegar ég sest í stólinn fer það.“

Bæi lið ætla sér sigur í kvöld þannig að um hörku keppni verður að ræða, en hún verður send út í beinni útsendingu á Rás2 frá Valaskjálf. Keppni hefst klukkan 20:30 og verður öllum opin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar