Hafa áhyggjur af vinnubátum skráðum erlendis

Landhelgisgæslan hefur áhyggjur af tilfellum þar sem fyrirtæki gera út báta skráða erlendis til lengri tíma með áhöfnum sem ekki uppfylla íslensk lög. Framkvæmdastjóri hjá stofnuninni segir fyrirtækin nýta sér gloppur í íslenskum lögum.

Landhelgisgæslan hafði í vetur afskipti af þjónustuskipi á vegum Fiskeldis Austfjarða. Skipið er undir 15 metrum af lengd, merkt íslenskri höfn en skráð í Noregi.

„Samkvæmt norskum reglum þarf ekki að skrá áhöfn á slík skip. Þegar við fórum um borð voru þar þrír starfsmenn, þarf af einn með skipstjórnarréttindi. Starfsmennirnir sögðu okkur hins vegar að sá væri skipstjóri sem sæti við stýrið hverju sinni,“ segir Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.

Ásgrímur gagnrýnir að fyrirtæki geti leigt til sín skip erlendis frá og nýtt þau árum saman hérlendis án þess að uppfylla íslenskar reglur. Það sé ekki heillavænleg þróun.

„Báturinn er merktur með íslensku skipaskrárnúmeri en á pappírum er hann skráður í Noregi. Er það framtíðin að það komi hingað skip erlendis frá, þar sem gilda aðrar reglur og menn geta hoppað um borð sem aldrei hafa á sjó komið? Þessi skip geta þess vegna verið hér árum saman rangt skráð. Þetta er að okkar mati ekki góð þróun.“

Vilja að íslenskar kröfur gildi

Landhelgisgæslan hefur farið um borð í báta sem sinna þjónustu við fiskeldi bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum og skráðir eru erlendis. Þar hafi áhafnamálin verið í lagi samkvæmt íslenskum reglum. Í bókun Ásgríms á fundi Siglingaráðs í vetur segir að áhafnarmál bátsins sem farið um borð í á Djúpavogi hafi verið í ólestri . Þar er bókuð sú afstaða Landhelgisgæslunnar að íslenskar kröfur eigi að gilda um þessa báta og áhöfnin með íslensk réttindaskírteini.

Aðspurður um málið sagði Guðmundur Gíslason, framkvæmdastjóri Fiskeldisins, að báturinn sé leigður frá Noregi en með íslenska áhöfn.

Gátu ekki kært farþegaflutninga

Í fundargerð Siglingaráðs koma einnig fram áhyggjur Landhelgisgæslunnar um að sama eigi einnig við í í farþegaflutningum. „Það eru gerðir út bátar sem eru skráðar erlendis og flytja farþega en hafa ekkert farþegaleyfi og því ekkert víst að þeir séu með öryggisbúnað samkvæmt íslenskum reglum. Sumir þessara báta flytja farþega til Grænlands. Lög um farþegaflutninga eiga við um íslensk skip sem stunda farþegaflutninga milli hafna á Íslandi en ekki um skip sem sigla til erlendrar hafna .“

Ásgrímur segir Landhelgisgæsluna einu sinni hafa stöðvað slíka skútu sem var að ferja fólk á Hornstrandir en gat ekki lagt fram kæru. Hann bendir á að þetta skekki einnig verulega samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja sem geri út farþegabáta.

Rétt að herða reglur

Ásgrímur telur að breyta þurfi reglum og herða kröfur til erlendra skipa sem koma hingað í atvinnuskyni. Þannig nefnir hann að skoða þurfi hvort þau eigi ekki að senda inn svokallaða komuskýrslu í hvert sinn sem þau komi í íslenska höfn.

„Það er eðlilegt að hingað komi skip til í verkefni sem hérlend skip geta ekki sinnt. Við þekkjum það með dæluskipið í Landeyjahöfn, sem fékk undanþágu frá komuskýrslum. Mér er hins vegar ekki kunnugt um neinar slíkar undanþágur fyrir þessi skip sem við erum að ræða um. Það væri ekki óeðlilegt að það væru tímamörk á hversu lengi skip getur starfað hér án þess að fara á íslenska skipaskrá.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar