Harðvítug kjaradeila á Hornafirði tefur samninga við önnur austfirsk sveitarfélög

Félagar í AFLi starfsgreinafélagi sem starfa hjá Sveitarfélaginu Hornafirði, greiða nú atkvæði um allsherjarverkfall. Deilan hefur hamlað því að skrifað sé undir samninga við önnur sveitarfélög á starfssvæði AFLs, sem nær frá Langanesi til Hornafjarðar. Deilan er í miklum hnút því félagið íhugar að kæra bæjarstjórann fyrir brot á lögum um vinnudeilur.

Á þriðjudag hófst atkvæðagreiðsla um verkfall um 120 félaga AFLs sem vinna hjá Hornafirði. Deilan snýr að sérákvæðum sem eru í samningi AFLs við Hornafjörð og sveitarfélagið hefur sagt upp. Þess vegna dró AFL samningsumboð sitt til baka þegar Starfgreinasambandið skrifaði undir nýjan samning við Samband íslenskra sveitarfélaga í sumar.

Þetta þýðir að AFL hefur heldur ekki gengið frá samningum við önnur sveitarfélög á starfssvæðinu: Langanesbyggð, Vopnafjarðarhrepp, Múlaþing, Fjarðabyggð og Fljótsdalshrepp.

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs, segir sérákvæði að finna í samningum fjölmargra stéttarfélaga við sveitarfélög víða um land. Almennt séu þau leifar frá fyrri tíð, fyrir sameiningar bæði verkalýðsfélaga og sveitarfélaga. Þegar farið var semja sameiginlega við sveitarfélögin í landinu hafi það verið krafa félagsfólks að halda sérákvæðunum inni. Þannig séu inni sérákvæði víðar á svæði AFLs, þótt þau séu ekki þau sömu og á Hornafirði. Hornafjörður sagði hins vegar upp þessum þremur sérákvæðum, sem fjalla um veikindadaga vegna barna, þrif á íþróttahúsi eftir samkomur og fatastyrki á leikskólanum, í lok árs 2022.

Beiðni um viðræður ekki svarað


Almennt fer SGS með samningsumboð fyrir hönd stéttarfélaganna og samninganefnd sveitarfélaga fyrir þeirra hönd. Hjördís Þóra segir hins vegar að sérákvæðin séu rædd beint milli viðkomandi stéttarfélags og sveitarfélags. „Þetta er einkennileg deila því við höfum beðið um viðræður síðan í febrúar en engin svör fengið. Önnur sveitarfélög þar sem sérákvæði gilda hafa kjark og þor til að ræða þau heima fyrir,“ segir hún.

Að sögn Hjördísar hefur AFL engin svör fengið frá Hornafirði, utan þess að áður en skrifað var undir samninga SGS í sumar, hafi staðgengill bæjarstjóra látið vita að ekki stæði til að ræða sérákvæðin. AFL hafi þá dregið samningsumboð sitt til baka.

Kjaraviðræður SGS og sveitarfélaganna voru komnar inn á borð ríkissáttasemjara áður en samið var í byrjun júlí. Hjördís segir hafa álitið það sem svo að deila AFLs og Hornafjarðar væri þar áfram og staðfesti það að beiðni ríkissáttasemjara í ágúst. Boðað var til fundar í kjölfarið þar sem fulltrúar Sveitarfélagsins Hornafjarðar mættu ekki heldur fulltrúar samninganefndar sveitarfélaga sem lýstu sig umboðslausa í málinu. Hjördís Þóra segist hafa beðið um að bókað yrði um árangurslausan fund, sem er forsenda þess að hægt sé að boða til verkfalls.

Hóta að kæra bæjarstjóra fyrir afskipti


Deilan er hins vegar komin í virkilegan hnút. Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Hornafjarðar, segir í löngum pistli á heimasíðu þess í gær að sérákvæði séu tímaskekkja og sveitarfélagið vilji tryggja jafnræði meðal síns starfsfólks, bæði varðandi veikindadaga og fatapeninga. Það hafi þó reynt að svara kröfum AFLs,í júlí hafi bæjarráð boðist til að bjóða að sérákvæðin giltu áfram fyrir það starfsfólk sem var í starfi þann 31. mars sl., þegar eldri kjarasamningur rann út. Því hafi verið hafnað. Hann segir forustu AFLs hafa haldið fund með starfsfólki á leiksóla fyrir helgi og dregið upp mjög einhliða mynd sem stjórnendur sveitarfélagsins hafi reynt að útskýra síðustu daga. Í yfirlýsingunni er einnig farið yfir aðrar aðgerðir sem sveitarfélagið hafi í hyggju að grípa til í starfsmannamálum á leikskólum.

Þær útskýringar hafa farið verulega öfugt ofan í AFL sem greindi frá því á sinni heimasíðu í dag að það íhugaði að kæra bæjarstjórann og lögfræðing sveitarfélagsins fyrir brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Þar er atvinnurekendum eða öðrum trúnaðarmönnum þeirra óheimilt að hafa afskipti af vinnudeilum eða afstöðu og þátttöku verkafólks í stéttarfélögum með loforði um fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitun á réttmætum greiðslum.

„Okkur þykir með ólíkindum að þegar atkvæðagreiðsla er komin í gang fara bæjarstjóri og fulltrúar hans á hvern vinnustaðinn á fætur öðrum með það sem þeir kalla upplýsingafundi en félagsmenn okkar segjast upplifa sem hótanir. Við höfum sent Sambandi íslenskra sveitarfélaga athugasemdir vegna þessa og íhugum að kæra bæjarstjórann fyrir óeðlileg afskipti því samkvæmt lögunum er óheimilt lofa fjárgreiðslum í þessari stöðu.“

Ekki deilur við önnur sveitarfélög


Sigurjón skrifar að hann sé efins um félagsmenn AFLs í öðrum sveitarfélögum séu ánægðir með að hafa ekki enn fengið umsamdar launahækkanir. Með að hafna samningunum hafi AFLs fært samningaviðræðurnar aftur á byrjunarreit þannig raunveruleg hætta sé á að þegar kjarasamningur verði undirritaður muni hann gilda frá undirritunarmánuði, en ekki afturvirkt frá 1. apríl eins og samningarnir sem undirritaðir voru í sumar.

Hjördís Þóra segir að það sé ósamið um þau ákvæði. Ekki sé ágreiningur um samningana, að hluta eða í heild, annars staðar á starfssvæðinu. Aðspurð um hvort líkur séu á að áhrif deilunnar á Hornafirði geti breitt úr sér víðar á AFLs svæðinu, svo sem með samúðaraðgerðum verkafólks, segir Hjördís að of snemmt sé að segja til um það en ekki útilokað.

Í bréfi Sigurjón hvetur hann til þess að ríkissáttasemjari boði sem fyrst fund í deilunni. Hjördís segir að fyrir milligöngu Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi verið boðaður fjarfundur á morgun. Þar sé von á að bæjarstjórinn mæti í fyrsta sinn til að ræða málin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.