Harma seinagang við sorphirðu

Sveitarfélagið Múlaþing hefur sent frá sér afsökunarbeiðni vegna vandræðagangs á sorphirðu síðustu mánuði. Vonast er til að ástandið lagist þegar fylgt verður eftir nýju sorphirðudagatali sem tekur gildi um áramótin. Alla virka daga er reynt að vinna upp þær tafir sem orðnar eru.

Vandræðagangur hefur verið á sorphirðunni í Múlaþingi og Fljótsdal, sem standa að henni saman, í haust samhliða skiptum á sorphirðufyrirtæki að undangengnu útboði. Það var haldið samkvæmt lögum eftir að fyrri samningar runnu út. Sveitarfélögin höfðu áður verið sektuð fyrir brot á lögum þegar samningur um sorphirðu við fyrri samningsaðila var framlengdur tímabundið í fyrra.

Útboð sveitarfélaganna í sumar var líka kært og hafa þau sagt það vera helstu ástæðu tafanna, auk þess sem vont veður eða ófærð hafa einnig sett strik í reikninginn. Loks 2. desember var útboð sveitarfélaganna að fullu úrskurðað löglegt. Í kjölfarið var gengið frá fullnaðarsamningum við nýjan sorphirðuaðila, Kubb.

Ákveðnar tunnur hafa hins vegar ekki verið tæmdar svo mánuðum skiptir sem farið er að reyna mjög á þolrif íbúa.

Afsökunarbeiðni til íbúa


Í tilkynningu sem Múlaþing sendi frá sér á Þorláksmessu er staðan hörmuð, íbúar beðnir velvirðingar á töfunum og óskað eftir samvinnu og skilningi þeirra meðan unnið er að úrbótum.

Þar er íbúum, sem lent hafa í miklum töfum, boðið að koma með úrgang á móttökustöðvar þar sem tekið er á móti þeim án endurgjalds. Gera þurfi grein fyrir því að um heimilissorp sé að ræða sem ekki hafi verið hirt í lengri tíma.

Nýtt sorphirðudagatal birt í dag


Þar segir að stefnt sé að koma málunum í lag sem fyrst á nýju ári samhliða því sem nýtt sorphirðudagatal tekur gildi. Því verður fylgt frá og með útgáfudegi. Núgildandi sorphirðudagatal er farið úr skorðum en samkvæmt upplýsingum frá Múlaþingi er stefnt á að nýtt dagatal verði birt síðar í dag. Gert er ráð fyrir svigrúmi í byrjun nýs árs til að bregðast við á þeim stöðum sem lengst hafa þurft að bíða eftir sorphirðu.

Á Þorláksmessu stóð til að klára að tæma pappa- og plasttunnur á Egilsstöðum en það tókst ekki vikuna á undan. Til stóð að fara slíka ferð í Hallormsstað og Velli en hvassviðri kom í veg fyrir að áformin gengu eftir.

Sorphirða í dag


Aðra tilraun átti að gera á föstudag auk þess að fara í Jökuldal og Hrafnkelsdal. Í upplýsingunum frá Múlaþingi segir að mannekla vegna veikinda hjá verktaka hafi flækt málið þannig aðeins var farið í Jökuldal og Hrafnkelsdal. Á laugardag var ekki til mannskapur í annað en halda gámavöllunum á Seyðisfirði og Egilsstöðum opnum.

Í dag er aftur áætlað að fara í Hallormsstað, Velli og klára hirðingu pappa og plasts á Egilsstöðum. Það sem út af stendur verður klárað á morgun. Til þessa hafa ekki verið kallaðir til aðrir verktakar en Kubbur hefur notið aðstoðar annarra við ákveðin atriði.

Slökkviliðið brýnir fyrir íbúum að brenna ekki rusli


Skömmu fyrir jól sendi Slökkvilið Múlaþings frá sér áskorun til íbúa að brenna ekki rusli. Var hún meðal annars send í kjölfar þess að Austurfrétt greindi frá því að íbúar til sveita hefðu gripið til þessa ráðs eftir að sorpið var farið að safnast upp hjá þeim. Bannað með lögum er að brenna rusl. Þá tilkynna vegfarendur gjarnan um eld, sem hefur oft skipt miklu máli. Útköll að erindisleysu eru dýr og mikilvægt að hægt sé að treysta tilkynningum.

Í Fjarðabyggð tókst fyrir jól að vinna upp tafir á sorphirðu og er hún komin á rétt ról samkvæmt dagatali.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar