Hefur trú á að Eyrin eigi eftir að veita betri þjónustu en sveitarfélagið
Formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar hefur trú á að ákvörðun um að selja Eyrinni heilsurækt tækjabúnað líkamsræktarstöðvarinnar á Reyðarfirði muni til framtíðar leiða til betri þjónustu í bæjarfélaginu. Hópur íbúa sendi bæjarráð undirskriftalista þar sem lokuninni er mótmælt.„Að við stækkum sem sveitarfélag þýðir að til verður svigrúm fyrir einkaaðila til að reka líkamsræktarstöðvar, eins og tíðkast í stærri sveitarfélögum.
Í þessu tilfelli var það Eyrin sem falaðist eftir auknu samstarfi við sveitarfélagið. Að baki Eyrinni stendur ungt fólk sem er komið af stað í rekstur og okkar sjónarmið er að sveitarfélagið eigi ekki að vera farartálmi þegar fyrirtæki er að stækka og efla sína þjónustu.
Ég er sannfærður um að Eyrin heilsurækt er betur í stakk búin að veita þjónustuna heldur en sveitarfélagið. Eyrin hefur sérhæft starfsfólk og einkaþjálfara og getur þannig veitt betri þjónustu en sveitarfélagið hefur nokkurn tíma stefnt að. Þess vegna held ég að það sé allra hagur að færa stöðina til þeirra,“ segir Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar.
Sparnaður ekki tilgangurinn
Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að selja Eyrinni nær öll tæki líkamsræktarinnar á Reyðarfirði. Þar með mun líkamsræktarsalurinn í íþróttahúsinu á Reyðarfirði loka en ný stöð opnar um áramót í húsnæði Eyrarinnar. Fyrirtækið yfirtekur jafnframt skuldbindingar Fjarðabyggðar, svo sem við korthafa.
Bæjarstjórn var einhuga um söluna. Fyrir fundi bæjarráðs í byrjun vikunnar lá hins vegar undirskriftalisti með um 60 nöfnum þar sem lagst er gegn lokun núverandi stöðvar. Ragnar segir að samningsaðilar þurfi að halda áfram að miðla upplýsingum, meðal annars um að þjónustan breytist í sjálfu sér ekki mikið.
Hann segir tilgangur sölunnar ekki vera að spara í rekstri sveitarfélagsins. Einhver hagræðing verði til þegar sveitarfélagið þurfi ekki lengur að halda við og endurnýjað búnað en hve mikil hún sé eigi eftir að koma betur í ljós. Aðalatriðið sé að nýta tækifæri til að efla þjónustu á svæðinu.
Fjarðabyggð rekur áfram stöðvar í Neskaupstað, Breiðdalsvík og Eskifirði. Á Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði eru það hins vegar ungmennafélögin, Leiknir og Súlan, sem eiga tækin. Ragnar segir ekki sérstaklega á dagskránni að selja aðrar stöðvar sveitarfélagsins. „Á Reyðarfirði kom frumkvæðið frá Eyrinni. Ef áhugi kæmi annars staðar myndum við skoða það en það er ekki sérstaklega til skoðunar.“
Fullur hugur á að nýta rýmið sem losnar
Íbúar á Reyðarfirði hafa meðal annars gagnrýnt að verið sé að færa þjónustuna fjær þeirri miðstöð sem byggst hefur upp í kringum íþróttahúsið og Fjarðabyggðarhöllina. Þar eru íþróttafélögin meðal annars með skipulagðar æfingar sínar.
„Við eigum eftir frekara samtal við Eyrina, íþróttafélögin og fleiri sem hafa nýtt sér þjónustuna um hvernig samstarfinu verið nákvæmlega háttað. Við eigum eftir sem áður aðstöðu til ýmiss konar líkamsræktar og í nýju íþróttahúsi er öflugur búnaður.
Við finnum þegar fyrir aðsókn í rýmin sem losna og það er fullur hugur á að nýta það í heilsutengda starfsemi eða fræðslu. Þetta er ekki bara íþróttalóð heldur er líka þarna skólastarf. Ég held við séum ekki að rýra svæðið. Ég óttast ekki fjarlægðina því Eyrin er í göngufæri.“
Ragnar ítrekar trú sína á að fyrirkomulagið reynist vel til framtíðar. „Ég hef hvergi séð umræðu meðal íbúa í sveitarfélögum, þar sem þau hafa hætt rekstri líkamsræktarstöðva og einkaaðilar tekið við, um að fara aftur til baka.“