Hegningarlagabrot hlutfallslega fæst á Austurlandi
Hegningarlagabrot eru hvergi hlutfallslega færri á Íslandi heldur en á Austurlandi þrátt fyrir að þeim hafi fjölgað í fjórðungnum árið 2011 samanborið við árin tvö á undan. Umferðarlagabrotum fækkaði en þau eru algeng á svæðinu.
Þetta kemur fram í afbrotatölfræði Ríkislögreglustjóra fyrir árið 2011. Hegningarlagabrot á Austurlandi voru 199 á hverja 10.000 íbúa og fjölgaði lítillega í báðum lögregluumdæmum fjórðungsins.
Umferðarlagabrotin voru á móti 1.693 á hverja 10.000 íbúa. Þau eru aðeins fleiri Suðurlandi og Vesturlandi og Vestfjörðum, sem eru saman í greiningunni. Brotunum fækkaði í báðum umdæmunum en eru töluvert algengari í umdæmi lögreglustjórans á Eskifirði. Af einstaka brotaflokkum fækkaði umferðarbrotum mest á landsvísu.
Sérrefsilagabrotum fjölgaði töluvert í Eskifjarðarumdæminu og eru um tvöfalt fleiri þar miðað við íbúafjölda í Seyðisfjarðarumdæminu þar sem þeim fækkaði. Á Austurlandi voru þessi brot 121 á hverja 10.000 íbúa. Flest voru þau á Suðurlandi, sem sker sig úr með 171 brot á hverja 10.000 íbúa en fæst á Höfuðborgarsvæðinu.
Kynferðisbrotum fjölgaði töluvert í báðum umdæmunum. Í Seyðisfjarðarumdæmi voru skráð fjögur slík brot, þar af tvær nauðganir, en þau voru engin árin 2009 og 2010. Í Eskifjarðarumdæmi fjölgaði slíkum brotum um helming. Þau voru tíu árið 2011, þar af fimm nauðganir. Í hvoru umdæmi fyrir sig var skráð eitt kynferðisbrot gegn barni.
Af öðrum einstökum brotaflokkum sem nefndir eru í skýrslunni má nefna að ofbeldisbrotum og áfengislagabrotum fækkar lítillega í fjórðungnum, auðgunarbrot og skjalafals eru álíka mörg milli ára en brotum gegn valdstjórninni fjölgar aðeins.
Í Eskifjarðarumdæmi fjölgaði fíkniefnabrotum en þau voru álíka brot í Seyðisfjarðarumdæminu. Eignarspjöllum fækkaði í Seyðisfjarðarumdæminu en stóðu í stað í Eskifjarðarumdæminu. Þjófnaður minnkaði í Seyðisfjarðarumdæminu en var svipaður í hinu. Brotum gegn friðhelgi einkalífsins fjölgaði töluvert í Seyðisfjarðarumdæmi en fækkaði í Eskifjarðarumdæminu. Hótanir eru uppistaðan í þeim brotaflokki.
Heildarfjöldi brota á landsvísu hefur ekki verið minni síðan skráning þeirra hófst árið 1999.