Skip to main content

Heimastjórn telur sér hleypt of seint að forgangsröðun um ferðamannastaði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. sep 2024 14:27Uppfært 09. sep 2024 14:28

Heimastjórn Djúpavogs gerir athugasemdir við vinnubrögð byggðaráðs og umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings við forgangsröðun á framkvæmdum við ferðamannastaði og telur að hún sé of seint fengin að borðinu.


Ráðin tvö hafa að undanförnu unnið að áætlun um röð framkvæmda á ferðamannastöðum í Múlaþingi til næstu fimm ára, sem aftur verður sótt um styrki fyrir til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða en koma líka inn á fjárhagsáætlun næsta árs. Forgangsröðunin er nú til meðferðar hjá heimastjórnum.

Í bókun heimastjórnarinnar á Djúpavogi segir að heimastjórnirnar ættu að koma að slíkri áætlanagerð strax í byrjun, en ekki í lokin þegar of seint sé að gera athugasemdir. Heimastjórnin vísar til þess að í byrjun maí hafi hún sent frá sér tillögur að verkefnum sem hægt yrði að sækja um í til Framkvæmdasjóðsins, en ekkert þeirra sér á áætlun í ár. Þá telur hún tækifæri til að sækja um fleiri verkefni en talin eru upp.

Heimastjórnin á Borgarfirði hefur ákveðið að rýna tillögurnar frekar þar sem í þeim var aðeins eitt verkefni á staðnum. Þær verða teknar aftur fyrir á næsta fundi.

Heimastjórn Fljótsdalshéraðs gerði engar athugasemdir við forgangsröðunina meðan heimastjórn Seyðisfjarðar sendi frá sér ábendingu. Ekki er nánar tekið fram í fundargerð hver hún var.