Hjón í heimasóttkví á Egilsstöðum

Hjón á Egilsstöðum eru í heimasóttkví eftir að hafa komið heim frá einu þeirra héraða á Ítalíu þar sem kórónaveiran hefur breiðst út. Ekki er grunur um að Héraðsbúarnir séu smitaðir.

Þetta staðfestir Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands. Í fréttum RÚV í gær var greint frá því að annað þeirra væri kennari við Egilsstaðaskóla og að foreldrum hefði verið sent bréf um málið.

Pétur segir að enginn grunur sé um að parið sé smitað né það hafi komist í snertingu við veikan einstakling með kórónaveiru á ferðum sínum.

Það var hins vegar í skíðaferð í ítalska héraðinu Venetó. Það er eitt fjögurra héraða landsins sem sóttvarnalæknir hefur mælst til að séu ekki heimsótt að nauðsynjalausu. Að auki er þeim sem dvalist hafa þar á undanförnum dögum og komnir eru til landsins ráðlagt að halda sig heima í 14 daga í varúðarskyni.

Samkvæmt upplýsingum á vef landlæknis er sóttkví í heimahúsi beitt þegar einstaklingur hefur mögulega veikst af sjúkdómi en er ekki enn veikur sjálfur. Fólk í slíku ástandi má ekki fara út af heimili sínu nema brýna nauðsyn beri til, svo sem á heilsugæslu að fyrirfram höfðu samráði.

Þá má viðkomandi ekki fara á mannamót, íþróttasvæði, út í búð né til vinnu eða skóla. Viðkomandi má fara í bíltúr á einkabíl, út á svalir eða garð við heimilið og út með heimilissorp gegn því að huga þá vel að hreinlæti sínu, að því er fram kemur í leiðbeiningum frá embætti landlæknis.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar