Hlýjasti júlímánuður sem mælst hefur á Dalatanga

Meðalhiti hefur aldrei mælst hærri í júlí á Dalatanga í sögu 80 ára veðurmælinga þar heldur en í nýafstöðnum mánuði. Hæsti meðalhiti á landinu var á Hallormsstað.


Meðalhitinn í júlí á Dalatanga var 10,2 gráður og er það hlýjasti júlímánuður sem mælst hefur í 80 ára sögu mælinga þar að því fram kemur í yfirliti Veðurstofu Íslands.

Hlýtt var á fleiri stöðum eystra, á Teigarhorni í Berufirði var meðalhitinn 10,4 gráður sem gerir mánuðinn þann fimmta heitasta í 146 ára sögu mælinga og 11,9 gráður á Egilsstöðum sem skilar mánuðinum í áttunda sætið í 64 ára sögu.

Í yfirlitinu kemur fram að hæsta jákvæða hitafrávik miðað við síðustu tíu ár hafi verið á Fjarðarheiði, 1,6 stig.

Hæsti meðalhiti mánaðarins var á Hallormsstað 12,1 gráða.

Mesti hiti á landinu mældist hins vegar á Patreksfirði á sunnudaginn var, 24,7 gráður. Það er jafnframt hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í ár. Í yfirlitinu segir að þann dag hafi gengið hitabylgja yfir landið sem sé sú útbreiddasta frá hitabylgju í lok júlí 2008.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.