Héraðsskjalasafnið hefur ekki efni á að vera með í Ormsteiti
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. ágú 2012 16:51 • Uppfært 08. jan 2016 19:23
Héraðsskjalasafn Austurlands tekur ekki þátt í Héraðshátíðinni Ormsteiti að þessu sinni eins og undanfarin ár. Gjarnan hefur það verið með í veglegri dagskrá í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Ástæðan er bágur fjárhagur safnsins.
„Orsakast það af samdrætti í rekstri safnsins sem leitt hefur til þess að okkur er enn erfiðara um vik en áður að sinna verkefnum utan fastrar daglegrar starfsemi,“ segir í frétt á vef safnsins.
Af sömu ástæðu er safnið ekki meðal þeirra sem taka þátt í atvinnulífssýningunni um helgina. „Það er vitanlega miður að svona sé komið enda mikilvægt fyrir stofnun sem sinnir almannaþjónustu að vera sýnileg, en þegar samdráttar í rekstri er tekinn að leiða til þess að starfshlutföll skerðast þá er erfitt við að eiga.“
Ríflega fimm milljóna króna halli var á rekstri safnsins í fyrra.