Hreindýraveiði gekk vel þrátt fyrir nokkuð rysjótta tíð

Haustveiðitímabili hreindýraveiðimanna lauk formlega í síðustu viku og náðist að veiða útgefinn kvóta nánast að fullu þrátt fyrir að veðurfarið hafi verið æði rysjótt á köflum.

Veiðitímabil tarfa hófst þann 15. júlí og kúa tveimur vikum síðar en öllum 800 veiðileyfum ársins var úthlutað og töluverður fjöldi á biðlista. Gengu veiðarnar brösuglega um tíma og enn átti eftir að veiða 350 dýr þegar septembermánuður gekk í garð en allra síðasta veiðidagurinn var 20. september.

Jóhann Guttormur Gunnarsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, er býsna sáttur við árangurinn þetta tímabilið.

„Allt gekk þetta að mestu leyti vel. Það var reyndar töluvert af dögum sem fóru illa vegna þoku og erfiðleikum að finna hjarðir en í heildina lukkaðist allt vel. Menn voru nokkuð heppnir síðustu þrjá, fjóra daga tímabilsins þegar veðrið var þokkalegt og vel gekk á flestum veiðisvæðum. Útkoman er ósköp svipuð því sem verið hefur undanfarin ár. Það voru aðeins ein sjö dýr sem ekki náðist að veiða innan tímamarkanna en það eðlilegt enda margir að detta úr skaftinu síðustu dagana og þá er tíminn stuttur til að úthluta að nýju. En það var töluvert mikið að menn væru að skila inn leyfum. Kannski vegna þess að menn voru að koma austur og þurftu að halda heim á ný án þess að komast á veiðar. Margir þeir kusu að skila inn leyfinu og láta endurúthluta því. Það var reyndar stór hluti minnar vinnu síðustu dagana að koma leyfum aftur út sem menn höfðu skilað af sér en það tókst tiltölulega vel.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.