Hringvegurinn í sundur á þremur stöðum vegna vatnavaxta

Veginum frá Fáskrúðsfirði til Hafnar hefur verið lokað alveg vegna hvassviðris og vatnavaxta. Bíll lenti ofan í skurði sem myndaðist í veginn í Berufirði.

Vegurinn við Karlsstaðavita norðanverðum Berufirði grófst í sundur í vatnavöxtum seinni partinn. Í veginn myndaðist skurður sem bifreið keyrði ofan í.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru tveir í bílnum. Þeir meiddust en ekki er ljóst hve alvarlega. Aðgerðir standa yfir.

Vegurinn frá Breiðdalsvík til Hafnar hefur verið skráður opinn lengst af í dag, en er nú lokaður. Vegurinn er einnig í sundur við Tóftá í sunnanverðum Stöðvarfirði. Þá flæðir Jökulsá í Lóni yfir varnargarða og veginn þar. Til viðbótar hefur verið ófært milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar vegna hvassveðurs í dag.

Ausandi rigning hefur verið á svæðinu í dag. Samkvæmt Veðurstofunni er úrkoman á Teigarhorni orðin tæpir 110 mm frá miðnætti. Sú úrkoma féll nær öll frá klukkan átta í morgun til klukkan 16. Þá fór heldur að draga úr henni. Rennsli í Fossá í Berufirði þrefaldaðist á þessum tíma, úr 40 rúmmetrum á sekúndu í rúmmetra. Rennsli Geithellnaár í Álftafirði fór úr um 100 rúmmetrum í 266.

Vatn flýtur einnig yfir veginn í Hróarsdtungu. Klæðning fór af milli Kolmúla og Hafraness í Reyðarfirði í veðurofsanum í dag.

Verkefni viðbragðsaðila vegna foktjóns hafa haldið áfram fram eftir degi þótt ástandið hafi orðið stöðugra eftir hádegið. Helstu verkefnin eru á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.