Íbúar á landsbyggðinni eiga líka rétt á að koma í og kveðja heiminn í sínu nærumhverfi

Heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni sparar Sjúkratryggingum Íslands fleiri hundruð flugferða á hverju ár, segir forstöðulæknir Umdæmissjúkrahússins í Neskaupstað. Hann blæs á spár um að sjúkrahús á landsbyggðinni séu of lítil til að geta sinnt þjónustu vel.

„Ég ætlaði ekki alltaf að verða læknir, ég hafði gríðarlegan áhuga á flugi og ætlaði að verða flugmaður. Ég var síðan byrjaður að læra að fljúga til að taka einkaflugmannspróf þegar fór að líða að lokum menntaskólans.

Á þessum tíma voru atvinnuhorfur fyrir flugmenn dökkar, og það varð til þess að ég hætti flugnáminu og skellti mér í læknisfræðina í staðina,“ segir Jón H. H. Sen forstöðulæknir Umdæmissjúkrahússins í Neskaupstað í viðtali í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.

Jón ræðir þar bæði lífshlaup sitt og sýn á heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Hann er fæddur Reykvíkingur, yngstur fjögurra systkina. Sen nafnið er kínverskt en afi hans er þaðan.

Jón rifjar upp að fyrstu tvö sumrin meðfram læknanáminu hafi hann unnið sem „starfsstúlka“ á slysadeild Landsspítalans. Það var þá rótgróið kvennastarf en Jón og félagi brutu ísinn. „Það var gaman að vera ferskur læknanemi á Slysó og mikið sem ég lærði á þessum tíma,“ segir hann.

Býr í Hafnarfirði, vinnur í Neskaupstað

Til Norðfjarðar kom hann fyrst árið 2002 að loknu sérfræðinámi í Noregi. „Við höfðum engin tengsl við Austfirðinga og höfðum aldrei komið til Neskaupstaðar en ákváðum að láta slag standa, og ég tók við stöðu skurðlæknis. Við ætluðum okkur ekki að vera þar nema kannski tvö ár, en okkur líkaði vel og árin urðu sjö.“

Jón býr í dag með fjölskyldu sinni í Hafnarfirði en kemur reglulega austur. „Ég fer austur í ákveðinn tíma og á síðan góð frí inni á milli og get verið heima með fjölskyldunni. Mér finnst þetta gott fyrirkomulag með góðu jafnvægi milli vinnu og frítíma.“

Jón er ekki eini læknirinn á sjúkrahúsinu með þetta fyrirkomulag. Í viðtalinu kemur fram að þrír læknar þess búi á staðnum: svæfingalæknir, aðstoðarlæknir og barnalæknir. Þá séu til staðar annar skurðlæknir og lyflæknir í hlutastörfum, líkt og Jón, sem búi báðir erlendis.

„Á móti kemur að við erum með stóran hóp af tryggum afleysingalæknum með ýmsar sérgreinar sem koma til okkar reglulega og fylla í eyðurnar þar sem vantar að manna, og gera það að verkum að þjónustan sem veitt er á FSN er að mörgu leyti fjölbreyttari en ella. Einnig fáum við til okkar talsvert af yngri læknum og læknanemum,“ segir Jón og bætir við að hann sé ánægður með andrúmsloftið innan stofnunarinnar og afslappaðra andrúmsloft en stærri stöðum.

Góður árangur í algengum vandamálum

Hann er líka ánægður með þá þjónustu sem veitt er eystra. Hann bendir á að stærri aðgerðir þurfi að gera utan fjórðungsins að lokinni sjúkdómsgreiningu og fyrstu meðferð í héraði. Sjúklingar séu síðan lagðir inn eystra þurfi þeir á því að halda að aðgerð lokinni.

Jón blæs á fullyrðingar um að ekki sé hægt að reka sjúkrahús á landsbyggðinni þar sem læknismeðferð sé orðin svo sérhæfð og flókin að minni sjúkrahús geti ekki veitt hana.

„Algengustu læknisfræðilegu innlagnar-ástæðurnar hjá okkur eru að aldraðir fá lungnabólgu, að það fjara undan öldruðum á heimili þeirra og þar fram eftir götunum. Þetta krefst ekki flókinna meðferða á hátæknisjúkrahúsi. Lítil sjúkrahús geta líka náð mjög góðum árangri í að veita meðferð við algengum vandamálum sem krefjast ekki flókinna lausna.

Mér finnst að íbúar á landsbyggðinni eigi líka rétt á því að fá að koma í heiminn og kveðja hann í sínu nærumhverfi í stað þess að vera sendir landshluta á milli fjarri ættingjum, og einnig að fá þá heilbrigðisþjónustu sem unnt er að veita þar. Með þessu spörum við íbúum og Sjúkratryggingum Íslands nokkur hundruð ferðir út fyrir landshlutann á hverju ári,“ segir hann.

Utan vinnutímans hefur Jón hvað mestan áhuga á skotveiði. „Ein af ástæðunum fyrir því að mér líkar svo vel að vinna fyrir austan er sú að þar er draumaland skotveiðimannsins. Ég á velviljaða bændur í Norðfjarðarsveit sem gera mér kleift að komast á gæsaveiðar án þess að þurfa að fara langt frá Neskaupstað, sem er sérstaklega hentugt þegar ég er alltaf á bakvakt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar