Illviðri setur strik í hátíðarhöld öskudags
Nemendur í Nesskóla í Neskaupstað hafa ekki enn farið af stað í bæinn til að halda upp á öskudag vegna vonds veðurs. Færð á og í kringum Egilsstaði er slæm.
Skólastjórnendur Nesskóla sendu frá sér tilkynningu í morgun um að ekki væri forsvaranlegt að senda skrautklædda nemendur út í veðrið. Staðan verði metin aftur undir hádegi, en farið verði á morgun ef ekki verður hægt að fara í dag. Í Neskaupstað sér vart milli húsa í hríðum.
Ekki er það skárra á Egilsstöðum þar sem er mjög blint, mikil úrkoma og strekkingsvindur. Þar er skóli felldur niður eftir hádegi samkvæmt venju og því undir forráðafólki komið hvort nemendur fari í fyrirtæki og stofnanir. Heldur er gert ráð fyrir að veðrið lagist þar um og eftir hádegi. Skólaakstur við Fellaskóla var felldur niður í morgun.
Austurfrétt er á þessari stundu ekki kunnugt um fleiri staði þar sem veðrið setur verulegt strik í hátíðarhöld öskudags.
Veðrið hefur spillt færð, einkum á Fljótsdalshéraði. Ófært er um Fell, Fjarðarheiði og Fagradal.Þungfært er um Velli, Skriðdal og Út-Hérað. Snjóþekja á Jökuldal, Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði og skafrenningur en þæfingur á Jökuldalsheiði. Hálka er frá Hallormsstað inn í Fljótsdal. Hálkublettir eru á leiðinni um firði.
Samkvæmt þjóðtrú á öskudagur sér átján bræður og var því trúað að veðurfarið næstu 18 daga á eftir væri svipað. Væntanlega vona Austfirðingar að svo verði ekki að þessu sinni.
Frá öskudegi 2019.