Innflutningsleyfi til Kína eykur möguleika íslensks eldisfisks

Íslendingar fengu í síðustu viku leyfi til að flytja eldisfisk til Kína. Framkvæmdastjóri Fiskeldis Austfjarða segir samninginn stóran áfanga fyrir íslenskt fiskeldi. Það hjálpi að hafa úr fleiri mörkuðum að velja.

„Þetta er mjög vaxandi markaður og framtíðarhorfur á honum góðar. Þetta er stór áfangi,“ segir Guðmundur Gíslason, framkvæmdastjóri Fiskeldis Austfjarða.

Fríverslunarsamningur Íslands og Kína tók gildi árið 2014 og gerir það að verkum að Íslendingar þurfa ekki að borga tolla sem flestar þjóðir þurfa að geta selt vörur sínar þangað.

Áður en hægt er að selja vöru til Kína þurfa þarlend stjórnvöld að veita innflutningsleyfi. Slíkt hefur verið tekið í skrefum. Þannig var gefið leyfi fyrir lambakjöt síðasta haust og í síðustu viku bættust íslenskur fiskeldisafurðir við.

Það ferli hefur tekið fjögur ár. „Það er búið að taka út aðstæður hjá okkur, bæði slátrunina og eldið. Það kom stór sendinefnd hingað í fyrra og heimsótti meðal annars Búlandstind,“ segir Guðmundur.

Hann segir mesta muninn felast í því fyrir Íslendinga að hafa núna fleiri markaði til að selja á. „Það er betra að hafa meira úrval en minna til að selja á. Þá er hægt að velja hvernig gengur á hverjum markaði í hvert skipti.

Færeyingar hafa selt mikið af laxi þangað. Við eigum eftir að komast að því hvaða verð fæst fyrir íslenskan fisk þar. Markaðurinn er mjög fjölbreyttur og þar er allt frá ódýrum eldislaxi upp í úrvalsvöru eins og við framleiðum.“

Frá staðfestingu innflutningsleyfisins í síðustu viku. Mynd: Fiskeldi Austfjarða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar