Jens Garðar oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Jens Garðar Helgason var í dag kjörinn oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Valið var milli hans og Njáls Trausta Friðbertssonar, oddvita í kosningunum 2021, á kjördæmisþingi í Mývatnssveit í dag.

Jens Garðar hlaut 100 atkvæði eða 59,5% í fyrsta sætið en Njáll Trausti 68 eða 40,5%.

Valið er í fimm efstu sætin á þinginu í dag. Kosið er um eitt sæti í einu. Von er á úrslitum úr næsta sæti eftir um hálftíma. Njáll Trausti hefur staðfest framboð sitt í það.

Fyrir þingið höfðu Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður, Berglind Harpa Svavarsdóttir, varaþingmaður og Valgerður Gunnarsdóttir, fyrrverandi þingmaður, gefið kost á sér í það sæti.

Jens Garðar er 47 ára gamall, fæddur og uppalinn á Eskifirði. Hann útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1996, stundaði nám við viðskiptafræði í Háskóla Íslands frá 1997 til 2000 og hefur MBA gráðu frá Norwegian School of Economics. Jens Garðar er búsettur á Eskifirði og starfar sem aðstoðarframkvæmdastjóri fiskeldisfélagsins Kaldvíkur.

Jens Garðar hefur lengi starfað í forystu sjávarútvegsins og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á sveitarstjórnarstigi. Hann var formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á árunum 2014 – 2020, varaformaður Samtaka atvinnulífsins 2017- 2020 og formaður bæjarráðs í Fjarðabyggð tvö kjörtímabil, 2010-2018.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.