Kæru Jarðarvina vísað frá

Lögreglan á Austurlandi mun ekki taka til meðferðar kæru frá Jarðarvinum vegna meintrar vanrækslu Náttúrustofu Austurlands við rannsóknir á afdrifum og afföllum hreindýrskálfa.

Eins og greint er frá í frétt hér á austurfrett.is, þá kærðu Jarðarvinir Náttúrustofu Austurlands í haust (ekki sl. vor eins og segir í nefndri frétt) á þeim forsendum að starfsmenn stofnunarinnar hefðu viljandi dregið að skila skýrslunni á tilsettum tíma í þeim tilgangi að hún myndi ekki hafa áhrif á hreindýraveiðar á þessu ári.

Í bréfi frá Lögreglunni á Austurlandi, sem stílað er á Ragnar Aðalsteinsson, lögmann, (afrit sent til NA), segir að NA hafi skilað minnisblaði til ráðherra með meginniðurstöðum rannsóknarinnar þann 17. júlí 2019. Endanleg skýrsla liggi nú fyrir, dagsett í nóvember og sé aðgengileg öllum á vef Umhverfisstofnunar.

Það liggi ótvírætt fyrir að starfsmenn NA hafi unnið sitt verk og það hafi ekki verið ásetningur þeirra að synja eða láta farast fyrir að vinna umrætt verk. Refsiskilyrði séu ekki fyrir hendi, samkæmt þeirri lagagrein sem kæran byggir á, og því sé kærunni vísað frá.

Í bréfinu segir síðan orðrétt:

„Þá verður að telja að orð í kæru yðar um að hin meinta refsiverða háttsemi starfsmanna Náttúrustofu Austurlands varði mögulega við ákvæði laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og laga nr. 55/2013 um velferð dýra, sé svo fráleit að ekki komi til greina að rannsaka málið m.t.t. brota á þessum lögum.“

Bréfið er undirritað af Helga Jenssyni, aðstoðarsaksóknara.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar