Kaldvík skoðar kaup á umbúðaverksmiðjunni og laxasláturhúsinu á Djúpavogi

Fiskeldisfyrirtækið Kaldvík hefur hafið viðræður um viðskipti sem fela það í sér að félagið muni eignast að fullu Djúpskel, sem framleiðir umbúðir utan um fiskafurðir og laxasláturhúsi Búlandstinds. Bæði fyrirtækin eru með aðalstarfsemi sína á Djúpavogi.

Þetta kemur fram í tilkynningu Kaldvíkur til Kauphallanna í Noregi og Íslandi, en félagið er skráð á hlutabréfamarkað í báðum löndum.

Að miklu leyti er um viðskipti milli tengdra aðila að ræða og eru í nokkrum hlutum. Í fyrsta lagi kaupir Kaldvík alla hlutina í Mossi ehf. sem á húsnæði umbúðaverksmiðju Djúpskeljar á Djúpavogi. Sá hlutur er keyptur af Heimstø, sem er í eigu Måsøval en hún á í gegnum eignarhaldsfélagið Austur Holding 55,29% hlut í Kaldvík.

Í öðru lagi kaupir Kaldvík umbúðaverksmiðju Djúpskeljar að fullu. Nafnið Djúpskel var tekið upp um miðjan maí en verksmiðjan var áður kennd við Bewi group, sem um leið fór út úr fyrirtækinu. Um það leyti eignaðist Ósval ehf. kassaverksmiðjuna að fullu. Það selur nú eign sína. Heimstø á í dag 53,6% hlut í Ósval ehf., en Ósnes ehf., 46,4%. Elís Grétarsson, framkvæmdastjóri Búlandstinds og fjölskylda eiga 46,4% hlut í Ósvali.

Þriðji hlutinn felur í sér kaup á 33,3% hlut Ósvals í Búlandstindi. Kaldvík á fyrir 66,7% af félaginu.

Viðskiptin eru metin á alls 190 milljónir norskra króna eða 2,24 milljarða íslenskra króna. Þar af eru verðmæti hlutanna í Djúpskel og Búlandstindi 150 milljónir norskra króna og eru að hluta greidd með hlutabréfarétti í Kaldvík. Stefnt er að því að klára viðskiptin á fyrsta ársfjórðungi 2025.

Í tilkynningunni er haft eftir Roy-Tore Rikardsen, sem í september kom til starfa sem framkvæmdastjóri Kaldvíkur, að viðskiptin muni spara Kaldvík 1,5 norska krónu eða 18,5 íslenskar á hvert kíló í umbúðakostnað. Þá veiti kaupin félaginu fulla stjórn á sláturhúsinu og þar með sveigjanleika til að stjórna getu þess og gæðum sem aftur styrki virðiskeðjuna til framtíðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar