Skip to main content

Kennarar VA þrýsta á um að kennarar hljóti laun á við almennan vinnumarkað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. okt 2024 16:13Uppfært 10. okt 2024 16:14

Kennarafélag Verkmenntaskóla Austurlands telur að íslenska ríkið hafi ekki staðið við kjarasamninga frá 2016 um að jafna laun og lífeyrisréttindi milli opinberra starfsmanna og almenns vinnumakaðar.


Þetta kemur fram í ályktun frá aðalfundi félagsins sem haldinn var í byrjun vikunnar. Þar segir að lífeyrisréttindi á almennum markaði hafi strax eftir samningana verið jöfnuð á við það sem gerist meðal opinberra starfsmanna og lífeyrisréttindi kennara síðan skert.

Á móti sé loforðið um jöfnun launanna óuppfyllt, þótt það hafi átt að gerast á 6-10 árum. Þvert á móti hafi kennarar dregist aftur úr öðrum stéttum í landinu í launum. Kennarafélagið segir verulega ámælisvert að ákvæði gerðra samninga sé virt að vettugi og skorar á hið opinbera að standa við gerða samninga.

Samningar framhaldsskólakennara hafa verið lausir síðan í lok mars. Kennarafélagið krefst þess að grunnlaun verði hækkuð til að rétta stöðuna og segir að sú aðferðafræði að horfa á heildarlaun gefi ranga mynd af stöðunni.

Kennarafélagið lýsir því yfir stuðningi við samninganefnd Kennarasambands Íslands í yfirstandandi kjaraviðræðum sem það væntir að verða árangursríka og skili samningum sem hægt sé að treysta á að staðið verði við.