Kjarasamningar milli AFLs og sveitarfélaganna í Höfn

Skrifað hefur verið undir kjarasamninga milli AFLs starfsgreinafélags og sveitarfélaganna á starfssvæði AFLs. Forsendan var lausn deilu við Sveitarfélagið Hornafjörð sem leystist áður en til boðaðs verkfalls kom.

Vegna deilnanna við Hornafjörð dró AFL til baka samningsumboð sitt til Starfsgreinasambandsins áður en skrifað var undir kjarasamninga við Samband íslenskra sveitarfélaga í byrjun júlí. Síðasta þriðjudag samþykktu félagar AFLs í störfum hjá Hornafirði verkfall, sem hefjast átti nú á miðvikudag, með 85% atkvæða.

Deilan leystist hratt í kjölfarið og á fimmtudag var skrifað undir við öll sveitarfélögin á starfssvæðinu: Hornafjörð, Langanesbyggð, Vopnafjarðarhrepp, Fljótsdalshrepp, Fjarðabyggð og Múlaþing. Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs, segir samningana að öllu leyti þá sömu og samið var um við sveitarfélögin í sumar.

Atkvæðagreiðsla um samninginn hefst í vikunni og stendur til morguns 15. október. Kynningarfundir um samningana verða haldnir víða um svæðið á þeim tíma.

Deilurnar við Hornafjörð snérust um þrjú sérákvæði sem hafa verið í samningum þar um fatastyrk starfsfólk á leikskólum, þrif á íþróttahúsi eftir stórhátíðir og sértaka veikindadaga vegna barna. Samið var um að starfsmenn sem voru við störf hjá Hornafirði 1. september síðastliðinn njóti þessara kjara en ekki nýir starfsmenn. Bæjarráð Hornafjarðar hafði í sumar lagt fram að sólarlagsákvæðið gilti frá 31. mars síðastliðnum. Þá kom í ljós að of lágur fatastyrkur hefur verið greiddur undanfarin fjögur ár. Sveitarfélagið mun leiðrétta það.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.