Kjörfundur gæti staðið til sunnudags

Yfirkjörstjórn í Norðausturkjördæmi er tilbúin að óska eftir því að kjörfundur standi til sunnudags ef veður verður þannig að kjósendur eigi erfitt með að komast á kjörstað á laugardag. Slíkt myndi um leið tefja úrslit af landinu öllu.

Samkvæmt veðurspám kemur lægð upp á landinu með úrkomu á laugardag. Áhrif hennar eru enn óviss, hún gæti valdið tímabundinni slyddu og mögulega ófærð á fjallvegum en samkvæmt núgildandi spá Veðurstofunnar verða áhrifin mest á Norður- og Austurlandi með bæði talsverði snjókomu og hvassviðri. Veðrið á að ganga niður snemma á sunnudagsmorgunn.

Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi, segir náið fylgst með veðurspám og viðbrögð undirbúin ef þær verstu rætast. Endanlegar ákvarðanir um viðbrögð eru í höndum landskjörstjórnar en yfirkjörstjórnir kjördæmanna óska eftir þeim þar sem þær bera ábyrgð á framkvæmd kosninganna.

Ekki hægt að telja fyrr en allir hafa lokið kosningu


Gestur segir að meðal þess sem yfirkjörstjórnin geti óskað eftir sé að kosningin standi í að minnsta kosti tvo daga. Slík ósk yrði þó aldrei send inn fyrr en á laugardag ef ljóst er þá að veðrið verði það vont að kjósendur komist ekki á kjörstað.

Það yrði í höndum landkjörstjórnar að ákveða hvort kjörfundur yrði framlengdur annars staðar. Hvort sem það yrði gert þá myndi þessi ákvörðun tefja úrslit kosninganna því kjörstjórnir geta ekki byrjað að telja atkvæði fyrr en öllum kjörfundum er lokið.

Koma þarf kjörgögnum til Akureyrar


Talning atkvæða innan kjördæmis er annar þáttur sem veðrið getur haft áhrif á. Í Norðausturkjördæmi eru atkvæði talin á Akureyri og því þarf að koma öllum kjörgögnum þangað. Ófærð á Mývatns– og Möðrudalsöræfum myndi því hafa veruleg áhrif á þá flutninga.

Yfirkjörstjórn hefur heimild til að skipa allt að tvær undirkjörstjórnir sem hafa heimild til að telja. Gestur segir að þessu ákvæði verði ekki beitt fyrr en með öllu séð útséð að ekki sé hægt að koma kjörgögnum á milli. Einkum við talningu utankjörfundaratkvæða þurfi kjörskrá að vera á hreinu og talning á mörgum stöðum flæki það.

Þess vegna er búið að semja við flestar björgunarsveitir svæðisins um að vera til staðar. „Þær eru mjög vel búnar og veðrið þarf að vera mjög slæmt til að þær komist ekki,“ segir Gestur.

Önnur ráðstöfun er að stytta kjörfundi og um leið hvetja íbúa til að koma sem fyrst á kjörstað þannig hægt sé að koma kjörgögnum sem fyrst af stað. Gestur vísar meðal annars til þess að kjörfundi í Grímsey sé oft lokið um hádegi.

Yfirkjörstjórn mun eins og aðrir landsmenn fylgjast ítarlega með þróun mála næstu daga. Landskjörstjórn fundar með Veðurstofunni um hádegi og síðar í dag með yfirkjörstjórnum. Gestur segir að undirbúningur haldi áfram miðað við nýjustu upplýsingar en sem stendur er stefnt að óbreyttum ráðstöfnum þar sem öll atkvæði yrðu talin á Akureyri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar