Klukkutíminn lengi að líða þegar beðið er eftir sjúkrabílnum
Slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum á Austurlandi kallar eftir því að viðbragðshópi á Borgarfirði eystra verið fundið skjól innan heilbrigðiskerfisins. Heimamenn séu viljugir til að bjarga sér en þurfi stuðning og heimildir til þess.Þetta var meðal þess sem fram kom á íbúafundi á Borgarfirði í byrjun síðustu viku þar sem rætt var um heilbrigðisþjónustu á staðnum. Heilbrigðisþjónusta er meðal þess sem helst hefur brunnið á íbúum þar í vinnu þeirra undir merkjum Brothættra byggða.
Tíu ár eru síðan læknir var síðast með móttöku á Borgarfirði en áður voru tímar í boði hálfsmánaðarlega. Á fundinum bentu stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) á að læknum á landsbyggðinni hefði fækkað verulega á þessum tíma.
Til að bæta gráu ofan á svart hafa Borgfirðingar verið án hjúkrunarfræðings frá árinu 2015. 40% staða var síðast auglýst árið 2016 án viðbragða. Á fundinum kom fram að HSA væri mögulega tilbúið að ráða hjúkrunarfræðing á staðinn sem gæti náð fullu starfi með að taka að sér verkefni víðar. Hjúkrunarfræðingur kemur til Borgarfjarðar á tveggja vikna fresti. Enginn sjúkrabíll er staðsettur á þar.
Þetta gerir það að verkum að íbúar þurfa annað hvort að sækja heilbrigðisþjónustu í Egilsstaði, klukkutíma leið yfir fjallveg. Þaðan kemur líka þjónustan þegar mikið liggur við. „Klukkutíminn er ótrúlega lengi að líða þegar beðið er eftir sjúkrabíl,“ sagði einn íbúanna á fundinum. „Við slökum ekki á kröfum okkar en við viljum fá alla möguleika sem við getum til að bjarga okkur,“ sagði annar. Fleiri íbúar bentu á að óöryggið hefði þau áhrif að nýtt fólk flyttist ekki til staðarins.
Heimildir á borð við þær sem sjómenn hafa
Til að bregðast við þessu var komið upp hópi sjálfboðaliða úr björgunarsveit og slökkviliði árið 2007 sem veitt hefur fyrstu hjálp meðan beðið er eftir aðstoð, svo sem sjúkrabíl eða lækni, annars staðar frá. Hópurinn hefur fengið þjálfun frá Sjúkraflutningaskólanum en kostnaður við þjálfun og útköll hópsins hefur verið greiddur af slökkviliði staðarins, sem tilheyrir Brunavörnum á Austurlandi.
Hópurinn hefur síðustu misseri lent í tveimur verulega erfiðum málum sem reynt hafa á sjálfboðaliðana. Þess vegna hafi verið boðað til fundarins til að fá viðbrögð frá stjórnendum HSA, sem Baldur segir að hafi fram að þessu ekki brugðist við erindum um hópinn. Hópurinn sinni samt fyrstu hjálp og sé þar með framlenging af heilbrigðiskerfinu hafi hann enga formlega stöðu innan þess. Skýra þurfi hvað hópurinn megi gera, fá honum viðeigandi tæki og þjálfun.
„Hópurinn er skilgreindur sem vettvangshópur hjá Neyðarlínunni. Hann er mikilvægur til dæmis gagnvart ferðamennsku á Víknaslóðum, eða ef það verður bílslys á Borgarfirði, því hann er klukkutíma á undan öðrum til aðstoðar. Hann má ekkert gera nema hnoða og setja plástur.“
Baldur bendir á að hópurinn geti orðið fyrirmynd annarra byggðarlaga þar sem langt er að sækja heilbrigðisþjónustu. Dæmi megi finna meðal sjómanna. „Allir sem gerast stýrimenn fara í gegnum þjálfun í skyndihjálp og í hverju skipi er búnaður sem þeir hafa heimild til að nota, sumt ekki nema með að ráðfæra sig við lækni. Við hefðum viljað koma upp einhverju svona á Borgarfirði.“
Koníak sem deyfilyf
Baldur segir að í stað þess að efla þann búnað sem til staðar sé á Borgarfirði hafi hann verið tekin í burtu. Íbúar nefndu dæmi þess að búnað hefði vantað þótt fagmanneskja hefði verið stödd á staðnum. Nefnt var dæmi þar sem einstaklingur hefði verið koníak áður en sár hans var saumað þar sem ekki var deyfilyf til staðar. Stjórnendur HSA skýrðu frá því á fundinum að nýverið hefði búnaður á Borgarfirði verið yfirfarinn og þar ætti allt það nauðsynlegasta að vera til staðar.
Baldur segist hafa vonast eftir því að fundurinn yrði til þess að fá skýr svör um hvernig Heilbrigðisstofnunin gæti komið að því að hjálpa hópnum. Þau hafi ekki fengist þar og enn sé beðið eftir fundi með stjórnendum HSA. „Tómlæti HSA gagnvart Borgarfirði hefur verið algert,“ segir Baldur.
Guðjón Hauksson, forstjóri stofnunarinnar, sagði á fundinum að hann gæti ekki svarað neinu á fundinum. Hann lýsti hins vegar fullum vilja til að skoða málin ásamt heimamönnum. Hann kallaði einnig eftir því að ríkisvaldið skýrði hvernig það vildi að byggðum sem skilgreindar hefðu verið sem brothættar væri sinnt.