Kolmunnavertíðinni að ljúka

Jón Kjartansson eldri kom í morgun með síðasta kolmunnakvótann til Eskifjarðar. Austfirsku skipin eru eitt af öðru að ljúka kolmunnavertíðinni en hlé verður á þeim veiðum fram á haust. Á ýmsu hefur gengið á vertíðinni.

Jón Kjartansson kom í morgun heim af miðunum með um 800 tonn. Þar með er kolmunnaveiðum skipa Eskju lokið í bili en fyrirtækið hefur veitt 48 þúsund tonn af 54 þúsund tonna kvóta sínum. „Skipin eru farin að fá ansi lítið, það er komið niður í 100 tonn á sólarhring,“ segir Baldur M. Einarsson, útgerðarstjóri Eskju.

Veiðum skipa Síldarvinnslunnar lauk í síðustu viku. Hoffell frá Fáskrúðsfirði og skip HB Granda Venus og Víkingur, sem landað hafa á Vopnafirði, eru enn á miðunum miðja vegu milli Færeyja og Hjaltlandseyja.

Kolmunnaveiðarnar hófust í byrjun árs þar sem ekki fékkst loðna. Framan af var veitt á alþjóðlegu hafsvæði vestur af Írlandi þar sem ekki höfðu tekist samningar við Færeyinga um veiðar í þeirra lögsögu.

Þótt veiðarnar við Írland hafi gengið ágætlega voru þær á köflum erfiðar vegna veðurs. Gluggi brotnaði um borð í Beiti frá Neskaupstað eftir að skipið fékk á sig brotsjó, björgunarbátur hentist inn á dekk Aðalsteins Jónssonar og blés þar upp eftir að skipið fékk brot á síðuna og önnur skip misstu björgunarbáta.

Þá glímdu skip Eskju við bilanir. Þannig hefur Jón Kjartansson yngri verið á Eskifirði síðan í byrjun mars þegar gírinn fór í skipinu. Jón Kjartansson eldri þurfti í slipp eftir að hafa fengið í skrúfuna.

Hlé verður nú á veiðum og vinnslu hjá Eskju fram í miðjan júlí þegar makrílvertíðin hefst. Veiðikvóti Íslands er ekki orðinn ljós. Í fyrra veiddu íslensku skipin rúm 130 þúsund tonn, ívið minna en árin á undan.

Alþjóðleg ráðgjöf hefur verið gefin út um 770 þúsund tonna makrílkvóta. Undanfarin ár hafa Norðmenn, Færeyingar og Evrópusambandið samið fyrst um sinn kvóta, sem er enn ógert en önnur ríki, þar á meðal Ísland, hafa fylgt í kjölfarið.

Það hefur líka áhrif á makrílkvótann að Alþingi hefur ekki enn afgreitt frumvarp sjávarútvegsráðherra um stjórnun veiða á makríl. Frumvarpið var lagt fram í vetur eftir að íslenska ríkið tapaði tveimur dómsmálum í Hæstarétti. Eskja er meðal þeirra fyrirtækja sem hafa áskilið sér rétt til að leita frekari réttar síns í kjölfar dómanna.

Enn eru meira en 50 þúsund tonn af íslenska kolmunnakvótanum óveidd. Búast má við að þau verði sótt í færeyska lögsögu um mánaðarmótin nóvember/desember. Fiskurinn er þá verðmætari þar sem meira lýsi fæst úr honum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.