Kynna matsáætlun sína vegna vindorkuvers í Fljótsdalshreppi

Fyrirtækið Fjarðarorka, sem áformar að reisa 350 megavatta vindorkuver á Fljótsdalsheiði í því skyni að afla orku fyrir rafeldsneytisverksmiðju á Reyðarfirði, hefur lagt fram til umsagna matsáætlun sína vegna verkefnisins.

Matsáætlunin er fyrsta formlega skrefið í umhverfismatsferlinu en byggir einungis á fyrirliggjandi gögnum. Áætlunin er í grunninn kynning á framkvæmdinni og hvernig áformað er að standa að umhverfismatinu sjálfu í kjölfarið. Öllum er heimilt að koma fram með umsagnir eða athugasemdir við verkið eða vegna verksins á vef Skipulagsstofnunar næstu fjórar vikurnar.

Áætlunin er 40 síður enda verkefnið töluvert viðamikið og mun breyta ásýnd Fljótsdalsheiðar mikið til framtíðar.

Í skjalinu kemur og fram að Fjarðarorka muni kanna möguleika á að auka afl vindorkuversins í allt að 500 megavött þegar þar að kemur ef mögulegt verður. Gangi það eftir verður heildarfjöldi vindmylla á svæðunum rúmlega 70 talsins í heildina. Annar eins fjöldi vindmylla, 70 til 100 talsins, rís svo ekki ýkja langt frá í landi Klaustursels á Efri-Jökuldal á svipuðu tímaskeiði svo heildarfjöldi þeirra, gangi allar áætlanir eftir, verður að lágmarki 120 samtals.

Vindrannsóknir og vegagerð

Þurfa mun um 87 ferkílómetra svæði undir vindmyllurnar en hvar nákvæmlega á þeim fimm svæðum sem um ræðir þær verða settar niður fer eftir niðurstöðum rannsókna á veðri og vindum á hverju svæði fyrir sig.

Alls telst mönnum til að fimmtíu vindmyllur þurfi til að framleiða 350 megawött en hver og ein þeirra verður um 200 metrar á hæðina. Algengur líftími vindorkugarða er talinn kringum 25 ár án endurbóta en Fjarðarorka horfir til þess að tvöfalda þann líftíma með endurbótum eða endurnýjun að 25 árum liðnum.

Þörf verður á töluverðum vegaframkvæmdum þegar þar að kemur til að koma vindmyllunum á sinn stað en svæðin fimm eru ekki tengd vegakerfinu nema með slóðum í dag. Gera sérfræðingar Fjarðarorku ráð fyrir að hver og ein vindmylla kalli á tíu ferðir flutningabifreiða frá uppskipunarhöfn að framkvæmdasvæði auk þess sem reisa þarf stóran krana á hverju framkvæmdasvæði til að koma myllunum upp.

Fyrir sína hönd þarf Fljótsdalshreppur bæði að gera breytingar á aðalskipulagi svæðisins og vinna fyrir það deiliskipulag en sú vinna er þegar hafin að stórum hluta.

Meðfylgjandi mynd er gróft mat sérfræðinga COWI á líklegan sýnileika vindmyllanna þegar upp komnar. Þær verða mjög áberandi á öllum dökkbláum svæðum á kortinu. Skjáskot.

Forsíðumyndin sýnir hluta lítt snortinnar Fljótsdalsheiðarinnar með fjalladrottningu Austurlands í bakgrunni. Svæðið mun taka miklum breytingum með vindmylluverum bæði á heiðinni sjálfri en einnig öðrum slíku veri ekki ýkja langt fram sem skal rísa í landi Klaustursels á Efri-Jökuldal. Mynd Landvernd.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.