Landað á Breiðdalsvík
Línubátarnir Ragnar SF 550 og Guðmundur Sig SF 650 frá Hornafirði, lönduðu tæpum 27 tonnum af fiski á Breiðdalsvík í gærkveldi, aflinn var að mestu steinbítur.Aflinn sem var að 90%um steinbítur var slægður á Breiðdalsvík en fer til vinnslu á Dalvík. Ragnar var með 12,7 tonn og Guðmundur Sig með 14,2 tonn sem gerir samtals tæp 27 tonn. Það er rúmur helmingur af því sem landað var á Breiðdalsvík á síðasta ári en þá var landað um 50 tonnum af fiski á Breiðdalsvík.
Að sögn Arnars Þórs Ragnarssonar skipstjóra á Ragnari, fékkst aflinn 5 til 7 mílur út af Breiðdalsvík, ,,þar eru pollar sem steinbíturinn liggur ofaní" sagði Arnar.
Fiskmarkaður Hornafjarðar sem bátarnir landa hjá, gerði nýverið samning við rekstraraðila Frystihússins á Breiðdalsvík um löndun úr bátum sem eru í viðskiptum við þá.
,,Við viljum virkja höfnina á Breiðdalsvík svo hún verði ekki úrelt, þetta er mikil lyftistöng fyrir plássið, sennilega vinna fyrir um 10 manns. Við erum 6 til 7 mánuði á veiðum á svæðinu frá Seyðisfirði til Breiðdalsvíkur á ári og komum til með að landa mikið á Breiðdalsvík þann tíma. Við eigum 300 tonna kvóta af steinbít sem við löndum á næstunni og komum til með að landa áfram á Breiðdalsvík" segir Arnar.