Leikmaður Einherja frjáls ferða sinna eftir lögreglurannsókn
Rannsókn lögreglu á líkamsárás sem erlendur knattspyrnumaður úr röðum Einherja á Vopnafirði var grunaður um að hafa stungið annan mann með hnífi er lokið. Leikmaðurinn er nú frjáls ferða sinna.Atvikið átti sér stað í heimahúsi á Akureyri í byrjun október og var leikmaðurinn settur í farbann á meðan rannsókninni stóð. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri var málið sent til embættis héraðssaksóknara sem lauk málinu með skilorðsbundinni frestun á ákæru.
Það þýðir að brjóti einstaklingur ekki af sér í tiltekinn tíma verður ekki gefin út ákæra í málinu. En ef einstaklingurinn brýtur á sér á skilorðstímanum er hægt að bæta ákærunni sem frestað var við nýja ákæru. Þetta á aðeins við um atvik sem gerast innan íslenskrar lögsögu.
Í svari við fyrirspurn Austurfréttar sagðist Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, ekki geta tjáð sig fyrir um einstök mál en alla jafna þyrfti að liggja fyrir játning í málum þar sem skilorðsbundinni ákærufrestun væri beitt. Möguleiki sé að hluti sakarefnis sé játað en annað sé ekki líklegt til sakfellingar, það er ekki sé hægt að sanna annað en það sem játað er. Ákærufrestunin tekur þá til þess sem játað er.
Ekki fengust frekar upplýsingar um málsatvik. Í yfirlýsingu Einherja í kjölfar atviksins sagði að sú lýsing sem stjórn félagsins hefði fengið frá leikmanninum væri önnur en fyrstu fréttir gáfu til kynna.
Í henni sagði að til átaka hefði komið milli þriggja manna sem endað hefðu hörmulega. Hjá lögreglu fengust þær upplýsingar að annar aðili hefði verið tekinn til rannsóknar vegna málsins en mál gegn honum síðar fellt niður.
Þá var staðfest að farbann yfir leikmanninum væri fallið úr gildi og hann því frjáls ferða sinna.