Leita að vatnsafli til að vega upp á móti vindorkunni
Stjórnendur Orkugarðs Austurlands leita að vatnsafli sem vegið getur upp á móti þeim tíma þegar vinds nýtur ekki til að nýja væntanlega rafeldsneytisverksmiðju á Reyðarfirði. Viljayfirlýsing liggur fyrir um orku úr Hamarsárvirkjun en Landsvirkjun hefur dregið sig út úr samstarfinu.Fulltrúar CIP, danska orkufjárfestingafélagsins að baki verkefninu, voru á Austurlandi fyrir sléttri viku. Þeir hittu fyrst fulltrúa sveitarstjórna en síðan samstarfsaðila í Orkugarðinum, meðal annars Síldarvinnsluna, Fiskeldi Austfjarða og Atmonia sem koma að Fjarðarorku. Samstarfsaðilarnir hafa lýst áhuga á að nýta hliðarafurðir sem verða til við framleiðsluna. Deginum lauk á opnum fundi á Reyðarfirði.
Verkefnið skiptist í nokkra hluta. Áformað er að byggja 350 MW vindorkugarð í Fljótsdal og orka úr honum verði notuð til að knýja rafeldsneytisverksmiðju á Reyðarfirði. Rafmagnið verður þar notað til að kljúfa annars vegar vatn til að fá vetni og súrefni til að fá nitur. Nitur og vetni bindast síðan í ammoníak sem er eldsneytið sjálft.
Ekki sama ammoníak og ammoníaknítrat
Á opna fundinum var talsvert spurt út í mögulega hættu af ammóníaki. Fulltrúar CIP sögðu að gera yrði greinarmun á ammóníaki og ammóníaknítrati, sem er notað í hefðbundna áburðarframleiðslu og hefur valdið alvarlegum sprengingum.
Markmið framleiðslunnar er að framleiða ammóníak sem CIP veðjar á að verði notað til að knýja skip í framtíðinni. Það hefur þá kosti að enginn koltvísýringur myndast við brennslu þess. Magnús Bjarnason, talsmaður CIP á Íslandi, bar ammóníaki á fundinum saman við metanól sem hann sagði henta í þær dreifileiðir sem til eru fyrir eldsneyti í dag en við bruna þess losnar koltvísýringur.
Hugmyndir eru uppi um að nýta ammóníak til áburðarframleiðslu með nýrri tækni á Reyðarfirði. Magnús sagði talsverðan markað fyrir það. Árlega séu framleidd um 180 milljón tonn í heiminum sem að mestu fari í áburðarframleiðslu. Verksmiðjan á Reyðarfirði geti afkastað 220 þúsund tonnum. Hún geri það hins vegar með endurnýjanlegri orku.
Áætlað er að verksmiðjan gæti annað um 50% orkuþarfar íslenska flotans miðað við hann yrði allur kominn á ammóníak. Ekki eru taldar líkur á að svo verði áður en verksmiðjan tekur til starfa, sem CIP vonast til að verði eigi síðar en árið 2030. Umframframleiðslan yrði flutt úr landi. Spurt var út í hvort véltækni væri tilbúin til að nýta ammoníakið. Magnús svaraði að MAN, einn stærsti framleiðandi skipsvéla í heinum, væri með tækni í þróun sem áætlað væri að prófa á næsta ári. Þá þróar fyrirtækið tækni til að breyta núverandi díselvélum á tiltölulega einfaldan hátt fyrir ammoníak.
Rannsóknir vegna vindorkugarðs frá næsta vori
CIP vonast til að verksmiðjan taki til starfa á árunum 2029-30. Stefnt er á skuldbindandi ákvörðun um fjárfestingu ár árunum 2026-30. Áætlað er að síðan taki 1-2 ár að byggja vindorkuverið en þrjú ár verksmiðjuna sjálfa. Kostnaður er metinn á 7-8 milljónir Evra eða um 110 milljarða íslenskra króna.
Í september var gengið frá samningi við landeigendur í Fljótsdal undir vindorkuverið. Þeir samningar og staðan á verkefninu í heilda voru kynnt á fundunum með sveitarstjórnum og samstarfsaðilum fyrr um daginn. Í samtali við Austurfrétt sagði Anna-Lena Jeppsson, verkefnisstjóri CIP, að verið væri að undirbúa vindmælingar og fuglarannsóknir frá næsta vori á hálendingu ofan Fljótsdals.
Þurfa að jafna út sveiflurnar frá vindorkunni
En vindorkan er ekki nóg því vindurinn blæs ekki alltaf. Magnús sagði á fundinum að verksmiðjan notaði 250 MW en í samtali við Austurfrétt eftir hann sagði Anna-Lena að unnið væri að nánari hönnun til að staðfesta orkuþörfina. Útlit væri alltént fyrir að vindorkan dygði ekki. Áætlað er að nýting vindorkuversins sé 40-45% að meðaltali. Möguleiki getur verið á að selja orku þegar vel gengur.
Fyrir liggur viljayfirlýsing við Arctic Hydro um að nýta afl Hamarsárvirkjunar inn í verkefnið en hún er talin gefa 60 MW. Anna-Lena segir líkur á að meira þurfi en það. Þess vegna þurfi að skoða hvaða aðrir orkuframleiðendur séu tilbúnir til samstarfs. Landsvirkjun var meðal þeirra sem gerðu fyrstu viljayfirlýsinguna sumarið 2021. Anna-Lena staðfesti að fyrirtækið hefði síðan dregið sig út úr verkefninu en vísaði á Landsvirkjun með nánari svör vegna hvers.
Á fundinum svaraði Magnús spurningum um traust á vindorkuna sagði CIP mæti litla fjárhagslega áhættu í vindorku á landi. Þar kom einnig fram að um orkunýtingin er um 40%, það er það afl frá því sem verður til í vindorkunum til þess sem hægt er að fá til að knýja skipsvélarnar.
Spurt var hvort rafeldsneytið gæti keppt fjárhagslega við jarðefnaeldsneyti. Magnús svaraði að olíuverð sveiflaðist á mörkuðum, í raun viti enginn hvað hún kosti á morgun, hvað þá árið 2030. CIP hefði trú á umbreytingum framundan í eldneytisgjöfum. Anna-Lena sagði Austurfrétt að sérfræðingar Rotterdam-hafna, sem eru meðal samstarfsaðila, teldu íslenskt rafeldsneyti geta orðið samkeppnishæft í verði með vatnsaflinu. Á sama tíma reiddu sum verkefni sig alfarið á vind.
Innviðir frá álverstímanum nýtast
Orkugarðinum hefur verið úthlutað lóð utan við álverið í Reyðarfirði. Hann er einnig í Svæðisskipulagi Austurlands. Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, sagði uppbygginguna í takt við stefnu stjórnvalda um orkuskipti. Áætlað hefur verið að Austurland noti 7-8% af þeirri olíu sem notuð er hérlendis árlega og munar þar mestu um skipaflotann.
Útlagður kostnaður Fjarðabyggðar við verkefnið er talinn vera um tvær milljónir í sérfræðiaðstoð en síðan vinna starfsfólks. Frekari fjárfestinga er þörf svo sem við uppbyggingu hafnarmannvirkja en áætlað er að nýr hafnarkantur við Mjóeyrarhöfn kosti 600-1000 milljónir.
Ýmis innviðir, svo sem í vatnsöflun, eru til staðar frá byggingu álversins. Raflínur eru til staðar fyrir álverið sem geta hjálpað orkugarðinum sem yrði þó víkjandi á þeim. Magnús sagðist vona að aukna tekjur til Landsnets gætu orðið til að lækka raforkukostnað til annarra notenda. Áður hefur þó komið fram að sveiflur vegna vindorkunnar geti hækkað raforkuverðið sjálft.
Áform eru uppi um að nýta varma sem fellur til frá framleiðslunni, 60-70 MW, í hitaveitu á Reyðarfirði. Magnús sagði orkugarðinum hafa verið valinn staður á Reyðarfirði vegna bæði innviðanna sem fyrir eru en einnig vegna möguleika á nýtingu aukaafurðanna. Áætlað er að 60 ný störf skapist við framleiðsluna sjálfa en á byggingatímanum þurfi allt að 1.000 manns.