Leita af sér allan grun um ísbirni við Laugarfell
Lögreglan á Austurlandi hefur að nýju hafið leit að ísbjörnum sem tilkynnt var um að væru á ferli við Laugarfell á Fljótsdalsheiði í gær. Engin ummerki fundust þá um dýrin.Erlendir ferðamenn tilkynntu um klukkan fjögur í gær um tvo ísbirni í nágrenni Kirkjufoss í Jökulsá í Fljótsdal. Lögreglumenn fóru á svæðið en fundu ekki önnur spor en eftir ferðamennina. Einnig var farið yfir myndir úr myndavélum Landsvirkjunar á svæðinu.
Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir svæðið og notaðist við nætursjónauka. Ekki fundust heldur neinar vísbendingar við þá leit. Til stóð að þyrlan færi aftur af stað í birtingu í dag en hún er ekki tiltæk.
Þess vegna verður í dag notast við flygildi. Sérstaklega er horft til þess hvort för sjáist í snjó eða hjarni á þeim slóðum sem birnirnir áttu að hafa sést. Endanleg niðurstaða ætti að liggja fyrir síðar í dag.
Í Laugarfelli er rekin ferðaþjónusta á sumrin en henni var lokað um mánaðarmót og skálinn yfirgefinn í vikunni.